Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:46:17 (1790)

2003-11-18 13:46:17# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að bankarnir sýni hagnað og geta eigendur bankanna vissulega glaðst yfir því að afkoma þeirra er með þeim ágætum sem raunin er. Þeir geta hins vegar haft áhyggjur af því að hagnaðurinn undanfarin ár stafar ekki af hagræðingu og sparnaði í rekstri. Þvert á móti er íslenska bankakerfið dýrt, dýrara en gengur og gerist í nágrannalöndunum og því vekur það vissulega athygli að hagnaður þess skuli vera meiri en gengur og gerist í kringum okkur.

Bankarnir hafa hagnast verulega það sem af er þessu ári á hlutabréfaeign sinni en það má líka reka stóran hluta hagnaðar þeirra til óeðlilegs vaxtamunar og tekna af þjónustugjöldum sem viðskiptavinunum er gert að greiða. Þess vegna geta viðskiptavinir bankanna ekki glaðst á sama hátt og eigendurnir yfir góðri afkomu bankanna. Þeir blæða enn fyrir há þjónustugjöld, hátt vaxtastig og mikinn vaxtamun.

Íslenska bankakerfið hefur verið gagnrýnt harðlega í nýlegri skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar m.a. á þeim grundvelli að viðskiptamenn hafi enga eða litla möguleika til að hafa áhrif á samningsskilmála útlána á meðan annars staðar á Norðurlöndunum sé einhliða réttur banka til að breyta vöxtum, kostnaði og öðrum þjónustugjöldum mjög takmarkaður. Á Íslandi taki bankar sér þennan rétt án þess að viðskiptamenn eigi nokkurn möguleika á að bregðast við. Til viðbótar tryggja svo stóru viðskiptabankarnir sterk ítök sín í skjóli samhliða lánaskilmála og áþekks vaxtastigs inn- og útlána þannig að samkeppni skerðir ekki tekjur þeirra. Það er þarna sem hæstv. ráðherra getur gripið inn í og við hljótum því að spyrja hann hér: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í þessum efnum til þess að sjá til þess að þetta virki? Samkeppni og möguleikar viðskiptavinanna til þess að hafa áhrif á samningsskilmálana eru það mikilvægasta í þessari umræðu og á meðan slík úrræði eru ekki til staðar getur almenningur og fyrirtækin í landinu ekki glaðst sérstaklega yfir góðri afkomu bankanna.