Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:50:36 (1792)

2003-11-18 13:50:36# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Almennt má segja að það sé mjög æskilegt að fyrirtæki hagnist og alger nauðsyn fyrir efnahagslífið að bankar séu reknir með hagnaði. Virkasta leiðin til þess að hagnaði banka sé stillt í hóf og bitni ekki á viðskiptavinunum, þ.e. heimilum og fyrirtækjum, er að virk samkeppni ráði á bankamarkaði. Til að komast hjá samkeppni er alþekkt leið að flækja og gera allan verðsamanburð erfiðan. Ríkisvaldið og hæstv. viðskrh. hér hefur hlutverki að gegna að setja skýrari leikreglur á þann hátt að allur samanburður verði einfaldari og samkeppnin virkari.

Í umræðu um ofsahagnað banka verður að gæta ákveðinnar sanngirni í garð bankanna. Það er rétt að hagnaður bankanna hefur vaxið en það er einnig rétt að bankarnir hafa stækkað mikið á síðustu árum. Það er rétt að vaxtamunur er e.t.v. að minnka lítillega nú, en hverjir hafa fengið lægri vexti? Það eru ekki heimilin og einstaklingar í landinu. Nei, það eru einkum stærri fyrirtæki sem eiga kost á því að taka lán í útlöndum. Vel að merkja, vegna samkeppni við útlent lánsfé hafa bankarnir lækkað vexti til stærri fyrirtækja en heimilin hafa setið eftir.

Mikil umræða var um tekjur vegna þjónustugjalda fyrir nokkru og getum við þakkað þá umræðu m.a. Neytendasamtökunum. Í þeirri umræðu reyndu bankarnir sífellt að flækja umræðuna og gera hana ómarkvissa. Bankarnir héldu því fram að stórir liðir í þjónustutekjum bankanna væru vegna sérfræðiaðstoðar og ekki einungis vegna hækkunar í frumskógi þjónustugjalda bankanna. Auðvitað á hæstv. viðskrh. að vera löngu búinn að setja skýrari reglur sem skylda bankana til að aðgreina tekjur af þjónustugjöldum annars vegar og sérfræðiaðstoð hins vegar. Hæstv. viðskrh. hafði hér á orði að hann vildi setja skýrari reglur og vonandi stendur hún við orð sín.