Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:52:51 (1793)

2003-11-18 13:52:51# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Líklega er bankastarfsemin sú einkavædda þjónusta sem býr við hvað mesta fákeppni hér á landi. Við þurfum ekki annað en að líta á einsleit þjónustugjöldin, orðalag innheimtuseðla, bréfa og annarra tilkynninga sem berast viðskiptavinum frá bönkunum. Þar hefur annar allan rétt og boðvald en neytandinn er réttlítill eða réttlaus. Bankarnir hafa aðgang að öllum upplýsingum um fyrirtækin sem eru í viðskiptum hjá þeim og líka allar upplýsingar um samkeppnisaðilann sem jafnvel líka er í viðskiptum hjá sama banka. Bankinn hefur í hendi sér að skerða lánskjör eins og efla annan. Hann hefur oft í hendi sér að kaupa upp fyrirtæki á verðum sem hann sjálfur ákveður og selja þau síðan aftur á þeim kjörum sem hann einnig ákveður og hefur síðan sama fyrirtæki áfram í viðskiptum. Bankarnir eru komnir í þá aðstöðu að geta tekið sér gróðann úr atvinnulífinu og frá neytendum.

Bankarnir hafa þá einu skyldu að hámarka arð eigenda sinna eins og við þekkjum úr umræðunni. Vinstri grænir hafa lagt áherslu á að einn sterkur þjóðbanki starfi við hlið einkavæddu fjármálastofnananna, banki sem bæri þjónustuskyldur við alla landsmenn, banki sem starfaði fyrir og á ábyrgð þjóðarinnar og fyrir þjóðina og lyti stjórn Alþingis og stillti arðsemiskröfu í hóf.

Við erum þegar farin að byggja upp slíka sjóði. Bankahlutverk Byggðastofnunar verður æ mikilvægara. Nýsköpunarsjóður, nýstofnaður þróunarsjóður sjávarútvegsins, allt eru þetta dæmi um hvernig einmitt kerfið vantreystir bönkunum og er að byggja upp sjóði til hliðar við þá. Við erum á vissan hátt á leið til þess að byggja upp þjóðbanka.

Virðulegi forseti. Það verður að grípa í taumana á fjármálamarkaðnum, setja bönkunum þjónustuskyldur og strangar samskiptareglur við neytendur og atvinnulífið og stofna þjóðbanka við hlið þeirra.