Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 13:55:12 (1794)

2003-11-18 13:55:12# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Dagný Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir u.þ.b. áratug gekk rekstur banka og fjármálastofnana á Íslandi mjög illa og þeir töpuðu verulegum fjárhæðum. Nú er vandamálið það að hagnaðurinn er of mikill. Það er út af fyrir sig gleðileg þróun og staðfestir þann mikla árangur sem ríkisstjórnin hefur náð með þeim umbótum sem hún hefur beitt sér fyrir í efnahagslífinu og á fjármálamarkaði.

Í þessu sambandi megum við hins vegar ekki gleyma því að þær umbætur sem gerðar hafa verið á fjármagnsmarkaðnum hér á landi eru eitt best heppnaða dæmið um nýsköpun í atvinnulífi Íslendinga undanfarinn áratug. Sú nýsköpun sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á fjármagnsmarkaði hefur orðið til þess að skapa störf fyrir hundruð eða þúsundir ungs vel menntaðs fólks auk þess að eiga mikinn þátt í þeirri uppbyggingu sem hér hefur orðið á öllum sviðum efnahagslífsins. Við skulum ekki fara í grafgötur með það að þessi þróun á fjármagnsmarkaði á ríkan þátt í því að tekist hefur að skapa hér fjölmörg störf sem annars væru ekki til og þannig hefur hún leitt til þess að þúsundir Íslendinga búa við velmegun sem þeir annars nytu ekki.

Virðulegi forseti. Við hljótum hins vegar að gera þá kröfu að viðskiptavinir bankanna, fyrirtæki og einstaklingar fái að njóta góðs af gróðanum með því að vaxtamunur verði minnkaður. Ég vil hér hvetja neytendur til að fylgjast með viðbrögðum bankanna og beina viðskiptum til þeirra banka sem sýna vaxtalækkanir í verki.