Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:03:03 (1798)

2003-11-18 14:03:03# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu gott að bankar og aðrar fjármálastofnanir gangi vel. En það er ekki af hinu góða að þessar stofnanir sópi til sín ofsagróða. Það er ekki af hinu góða að þær geri það í skjóli fákeppni og það er ekki af hinu góða að þær hagnist á grundvelli þess að telja sér nánast allt leyfilegt í braski með fyrirtæki og samskiptum við viðskiptavini sína.

Ég verð líka að mótmæla því þegar hér kemur hver ræðumaður á fætur öðrum og talar eins og erfiðleikar bankakerfisins fyrir meira en áratug síðan hafi allir verið vondum rekstri þar að kenna. (Gripið fram í.) Þar kom að sjálfsögðu margt fleira til, hv. þm. Pétur Blöndal. Þar kom það til að bankarnir deildu kjörum með hinu almenna atvinnulífi í gegnum mikið erfiðleikatímabil og íslenska bankakerfið slapp reyndar betur í gegnum þá hluti heldur en bankakerfi allra nálægra landa þar sem þurfti að setja miklu meira fé inn í að halda því á floti heldur en þó hér, svo skotið sé skildi fyrir bankana á þeim tíma að þessu leyti. Menn tala annaðhvort af ósanngirni eða hreinni vanþekkingu þegar þeir tala eins og hér var gert áðan.

Það er óhjákvæmilegt að fara ofan í saumana á því sem hefur verið að gerast í íslenska bankakerfinu undanfarin missiri vegna hins gríðarlega hagnaðar, vegna framgöngu bankanna í atvinnulífinu, vegna þátttöku þeirra í atvinnurekstri sem truflar eðlilega samkeppni, vegna hins klassíska fákeppnisumhverfis sem hér hefur verið að myndast og í ljósi alls konar stjórnunar- og eignatengsla sem bankarnir og ekki síst bankastjórarnir sjálfir eru margkrossaðir í, sitjandi í stjórnum dótturfyrirtækja, þjónustufyrirtækja, eigandi innheimtufyrirtæki o.s.frv. Það sem hefur gerst er að ríkisstjórnin með einkavæðingu sinni hefur afhent tvo af þremur stærstu bönkum þjóðarinnar í hendur einum eða fáeinum nátengdum aðilum sem beita þeim nú sem tækjum í valda- og hagsmunaslagsmálum sínum í íslensku viðskiptalífi. Þetta fákeppnissamþjöppunarumhverfi hefur ríkisstjórnin með mislukkaðri einkavæðingarstefnu sinni hjálpað til að búa til á þessu sviði í viðbót við öll önnur sem fyrir voru.