Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:07:11 (1800)

2003-11-18 14:07:11# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁI
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra svörin. En það er dapurlegt að í máli hæstv. ráðherra kom fram að það er greinilegt að í viðskrn. deila menn a.m.k. ekki áhyggjum Morgunblaðsins og Margeirs Péturssonar um ítök og afskipti bankanna í atvinnulífinu. Á þeim bæ deila menn heldur ekki áhyggjum Neytendasamtakanna eða Samtaka fjárfesta um há þjónustugjöld, óeðlilegan vaxtamun, vaxandi fákeppni og skort á samkeppni í almennri bankastarfsemi hér á landi. Og í viðskrn. finnst fólki engin ástæða til að snúa af braut einkavæðingar vegna þess áfellisdóms sem einkavæðing bankanna er orðin yfir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar. Loks var ekki neina eftirsjá að heyra í máli hæstv. ráðherra eftir þeim peningum sem ríkisstjórnin afsalaði sér endanlega með sölu bankanna.

Ekki var að heyra á máli hæstv. ráðherra að 25 milljarða gróði bankanna á þessu ári gefi tilefni til þess að breyta lögum eða að Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun sem heyra undir ráðuneyti hæstv. ráðherra athugi málið nánar. Í þessu sambandi talaði ráðherrann eins og oftar bara um útrás og maður hlýtur að spyrja: Er verið að hvetja bankana til þess að elta Landssímann til Búlgaríu eða hvað?

Virðulegur forseti. Það er ljóst að einkavæðing bankanna hefur leitt til fákeppni og enn frekari samþjöppunar auðs og valda í viðskiptalífinu. Ofsagróðinn á þessu ári hefur í engu skilað sér til almennra viðskiptamanna. Venjulegt fólk sem hefur lagt fyrir fyrir útförinni sinni eða safnað saman einhverjum smávarasjóði á sparisjóðsbók fær 0,15% í ávöxtun í öllum þessum þremur bönkum nota bene. En bankinn sjálfur krefst a.m.k. hundraðfalt meira fyrir sig eða 15% arðsemi. Það er sannarlega kominn tími til að skilja á milli fjárfestingarbankastarfs annars vegar og viðskiptabankastarfs hins vegar og við skulum bara vona, að hæstv. viðskrh. fari að sjá ljósið í þeim efnum.