Afkoma bankanna

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:09:23 (1801)

2003-11-18 14:09:23# 130. lþ. 29.94 fundur 161#B afkoma bankanna# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem átti fullan rétt á sér að mínu mati. Í sambandi við það sem kom fram hjá málshefjanda í lokin þegar hún segir að ekkert hafi komið fram í mínu máli þess efnis að Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun ættu að athuga frekar það sem væri að gerast á markaðnum þá er það þannig að þessar stofnanir starfa algjörlega sjálfstætt. Það er ekki mitt hlutverk að segja þeim fyrir verkum. Ég er ýmist minnt á það af hv. þingmönnum að stofnanirnar eigi að starfa sjálfstætt eða hitt að ég eigi að hafa afskipti af þeim. Það er því ekki mikið samræmi í hlutunum.

Hæstv. forseti. Það er talað um það sérstaklega af hálfu þingmanna Vinstri grænna að skilja þurfi á milli fjárfestingarstarfsemi og viðskiptabankastarfsemi og hafa hv. þingmenn flutt þingmál þess efnis. Ég hef oft látið það koma fram í þinginu að þar sem við erum á hinu Evrópska efnahagssvæði á innri markaði Evrópu þá er okkur mikilvægt að hafa svipað lagaumhverfi hér og þar tíðkast vegna þess að þau íslensku fyrirtæki sem hér starfa gætu hugsanlega ekki orðið lengur íslensk ef við værum með allt annað fyrirkomulag. Þetta er það fyrirkomulag sem tíðkast og við munum að sjálfsögðu viðhafa það einnig. Hins vegar legg ég áherslu á að fjármálafyrirtækjum er ekki heimilt að vera kjölfestufjárfestar í atvinnufyrirtækjum öðrum en fjármálafyrirtækjum. Þess vegna er það þannig að þegar um slíka fjárfestingu er að ræða þá er hún tímabundin og það er mjög nákvæmlega kveðið á um það í lögum.

Ég vil að síðustu segja að ég er að láta skoða samningsskilmála banka og sparisjóða við neytendur í hefðbundnum bankaviðskiptum. Það er nefnd í gangi sem er að fara ofan í saumana á því máli. Mér finnst mjög mikilvægt að það verði gert. Þetta starf hefur verið í gangi og fljótlega er að vænta einhverrar niðurstöðu. Svo þakka ég fyrir.