Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:54:32 (1804)

2003-11-18 14:54:32# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir ræðu hans og greiningu á fjáraukalagafrv. því sem hér liggur fyrir. Í ræðu hv. þm. kom skýrt fram að hann telur að togstreita hafi verið milli Alþingis annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. En þegar á ræðuna leið þá hafði það nú verið í reynd þannig að þingmennirnir hafi flestir verið tamdir, jafnvel hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.

Mig langar að heyra betur frá hv. þm. hvað hann á við. Er hann í reynd að segja, er það greining hans á þessari stöðu, að það sé hlutverk fjárln. að stimpla tillögur ríkisstjórnarinnar og ekkert annað? Er hann í raun að segja að þær hugmyndir sem frá ríkisstjórninni koma séu einfaldlega afgreiddar? Er þar með hægt að staðfesta yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um að ríkisstjórnin geti gefið hvaða vilyrði sem er varðandi útgjöld því þeir muni ætíð fá stimpilinn hjá meiri hluta þingsins? Það væri, virðulegi forseti, afar alvarlegt mál.

Hv. þm. virtist tala af mikilli þekkingu þegar hann ræddi um agaleysi hjá ríkisvaldinu hvað varðar meðferð fjármuna. Ef veruleikinn er sá að þingið veiti heldur ekki það aðhald sem það á að veita þá tel ég að við séum í mjög alvarlegri stöðu sem nauðsynlegt er að skoða betur.