Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 14:56:32 (1805)

2003-11-18 14:56:32# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir þær spurningar sem hann kom fram með. Í nál. er ekki hægt að tína allt til og eðlilegt, ef eitthvað hefur ekki verið fyllilega ljóst, að út í það sé spurt.

Hv. þm. dregur að ég held réttar ályktanir af orðum mínum. Ég tel það alvarlegasta ástandið í stjórnafarinu að aðhald Alþingis skortir gagnvart framkvæmdarvaldinu, sérstaklega hvað varðar fjármál ríkisins. Orðaval hv. þm., þegar hann segir að í raun sé verið að stimpla tillögur ríkisstjórnarinnar, er því miður allt of nærri sannleikanum.

Þetta minnir, herra forseti, oft á tíðum á vinsæla breska þætti sem hétu ,,Já, ráðherra``. Einhvern veginn er það þannig að megnið fer sjálfvirkt í gegn. Ég verð að segja, herra forseti, að það var ekki tilviljun að ég nefndi dæmið um hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Hv. þm. var manna vaskastur, m.a. á árunum 1999. Það var einmitt dæmið sem ég tók í ræðu minni um aðhald sem farið var af stað með og ég hafði fulla trú á að mundi fara vaxandi. En því miður, herra forseti, eins og ég sagði í ræðu minni, er engu líkara en að sumir hv. þm. hafi verið tamdir. Það hefur mikið breyst frá árinu 1999 varðandi aðhaldið.

Dæmið sem ég tók held ég að hafi sýnt og sannað að það er allt annar tónn hjá stjórnarmeirihlutanum í fjárln. en var árið 1999. Hvort þar er um tamningu að ræða eða eitthvað annað ætla ég ekki að fullyrða. Það var aðeins nokkuð sem ég hugsaði upphátt.