Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:00:11 (1807)

2003-11-18 15:00:11# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að hin pólitíska ábyrgð er að sjálfsögðu hjá Alþingi. Hið sorglega er í þessu ferli öllu saman að þannig skuli vera búið að temja ríkisstjórnarmeirihlutann á þinginu að hann reyni ekki einu sinni að lyfta litla fingri til að koma aga á þessi mál.

Herra forseti. Leiðrétta verður hv. þm. þegar hann talaði um að það hefði komið fram í máli mínu að hugsanlega yrði um 6,5% framúrkeyrslu að ræða. Það fer auðvitað eftir því hvernig við horfum á þá tölu. En það er ekki það sem blasir við, enda er umræðu um fjáraukalögin ekki einu sinni lokið. Hins vegar benti ég á að það er 6,5% aukning frá samþykkt fjárlaga og það er auðvitað svolítið önnur tala.

Herra forseti. Vegna þessa andsvars hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er rétt að benda á að ákvörðun hefur verið tekin um það og að minni hyggju er full ástæða til þess að breyta vinnubrögðum í fjárln. Verið er að vinna þar vinnu sem ég vona að verði komin í gagnið næsta haust. Það er auðvitað ekki bara vegna þess að ég tala hér sem fulltrúi stjórnarandstöðu og sé að gagnrýna ríkisstjórnarmeirihlutann, þetta er miklu alvarlegra mál en það. Og þetta er sérstaklega alvarlegt eins og ég nefndi í ræðu minni vegna þeirrar einföldu ástæðu að við erum að sigla inn í ástand í efnahagsmálum þar sem agi í ríkisfjármálum skiptir gífurlegu máli, þar sem áætlunargerð í ríkisfjármálum skiptir gífurlegu máli, þar sem menn eiga að geta treyst því að fjárlagafrv. og fjárlög séu ekki bara glanspappír, heldur eitthvað sem taka má mark á.