Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:31:05 (1814)

2003-11-18 15:31:05# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að það eigi að vera markmið okkar Íslendinga að standa vörð um félagslegt heilbrigðiskerfi, það eigi að vera grundvallarmarkmið og ekki eigi að taka neina áhættu í því. Hins vegar verð ég að leiðrétta hv. þm. að Íslendingar verja ekki hæsta hlutfalli þjóðartekna sinna til heilbrigðisþjónustu af löndum í heiminum. Ég held, eftir því sem mig minnir, að meira að segja Bandaríkin séu með hærra hlutfall en jafnframt er heilbrigðisþjónustan þar orðin tvískipt þannig að stór hluti þjóðarinnar hefur í rauninni ekki neinn aðgang að heilbrigðiskerfi.

Því eru þessi varnaðarorð höfð uppi hér að við þróumst ekki inn í sama kerfi og (Gripið fram í: Ertu að draga í land?) þar er. Nei, alls ekki og veit ekki annað heldur en að herða í. En í ræðu minni sagði ég, með leyfi forseta, að það megi ekki gerast að hér verði rekið tvöfalt heilbrigðiskerfi, að það þróist í þá veruna. Það er að þróast í þá veru og það er hættuleg þróun.

Ég get farið hér út í að ræða við hv. þm. um hvernig tannlæknaþjónustan hefur þróast hér á síðustu árum. Tannlæknaþjónusta og tannréttingar eru að verða munaðarvara fyrir ríkt fólk. Veit hv. þm. það? Þvert á þá stefnu sem ég hélt að við mundum fylgja í samhjálp í heilbrigðisþjónustunni. Við erum að mola hana niður og ef við stöndum ekki vörð um heilbrigðisþjónustuna þá er svo auðvelt að mola hana niður, eins og heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sem kom hér í heimsókn fyrir tveimur árum, benti á: Standið vörð um heilbrigðisþjónustuna ykkar og takið enga áhættu þar í.