Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:36:48 (1817)

2003-11-18 15:36:48# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera heilbrigðis- og tryggingamál að umræðuefni hér í fjáraukalögum fyrir árið 2003. Ég ætla ekki að fara í önnur mál varðandi fjáraukalögin. Það er nú svo að menn eru ekki öfundsverðir af að stjórna fjármálum ríkisins, það eru margir goggar sem þarf að metta og verða sjálfsagt aldrei mettir sumir hverjir. En ég ætla að fara yfir nokkur mál sem ég held að þurfi að ræða hér á Alþingi og víðar, hvert stefnir í heilbrigðismálum þjóðarinnar varðandi útgjöld.

Áður en ég tók sæti á Alþingi fyrir einum fjórum árum voru menn sýknt og heilagt að keyra fram úr í heilbrigðismálum, fyrir sex og sjö árum, og síðan hefur þetta haldið áfram. Það er alltaf verið að leiðrétta grunninn í fjáraukalögum hvers árs og menn mjög ánægðir þegar kemur önnur holskefla af framúrkeyrslum. Og þetta eru áætlanir sem fólkið í þessum stofnunum gerir. Og það er mjög alvarlegt ef þetta heldur áfram ár eftir ár eftir ár og er ekki stoppað.

Ég ætla að byrja að fara, með leyfi forseta, í lyfjakostnað og vitna hér í nál. meiri hlutans. Þar stendur:

,,Lagt er til 177 millj. kr. framlag til að mæta auknum útgjöldum vegna lyfja. Í samræmi við endurskoðaða áætlun á lyfjaútgjöldum á árinu 2003 í lok október stefna þau í rúmlega 5,9 milljarða króna`` --- það eru 6 milljarðar í lyf --- ,,á árinu eða tæpar 340 millj. kr. umfram fjárheimildir fjárlaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 160 millj. kr. viðbótarframlagi en í ljósi mjög aukinna útgjalda í september og október í ár, sem hafa hækkað um rúmlega 22% frá sömu mánuðum í fyrra, er óskað eftir 177 millj. kr. Til samanburðar má geta þess að fyrstu átta mánuði þessa árs hækkuðu útgjöldin einungis um 5% miðað við sama tímabil í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun er skýring þessarar aukningar einkum aukin neysla, þ.e. aukið magn, og tilfærsla frá ódýrari lyfjum yfir í dýrari umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.``

Ef maður kíkir nokkur ár aftur í tímann þá hefur þessi aukning á lyfjum verið einhvers staðar á bilinu 12--15% á ári hverju. Og ef maður dundar sér við að reikna það stærðfræðilega hvernig þetta muni verða eftir 30 ár, 20 ár eða jafnvel 10 ár, hvar þessi lyfjakostnaður muni enda, og síðan aukninguna í öðrum heilbrigðisútgjöldunum á sama tíma, ef við reiknum þetta nú saman, þá munum við ekki eiga margar krónur til annarra hluta eftir 10--20 ár, virðulegi forseti.

Þarna er um mjög alvarlegan hlut að ræða, menn verða að gjöra svo vel að setjast niður og horfa á þetta og taka á þessu. Það er alveg ljóst að það getur verið aukinn kostnað vegna dýrari lyfja, það eru að koma ný krabbameinslyf og þess háttar. En þær sögur ganga líka um þjóðfélagið að verið sé að moka út lyfjum í sjúklinga sem þurfi ekki á þeim að halda. Ég þekki dæmi til þess arna.

Ef þetta heldur áfram svona í lyfjakostnaðinum, 6 milljarðar og tæp 15% á ári, þá þarf ekki mikla stærðfræðinga til að sjá að á næsta ári á sama verðlagi verður þetta komið yfir 7 milljarða og svo heldur þetta áfram. Ég spyr: Hvað ætla menn að gera til að stoppa þetta?

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að við eyddum þjóða mest í heilbrigðismálin og það er rétt. Við gerum það miðað við landsframleiðslu. Þrátt fyrir það að við séum yngsta þjóðin í Evrópu. Eyðum svipuðu af landsframleiðslu og Þjóðverjar sem eru með elstu þjóðum. Og hvernig verður það þegar þjóðin okkar fer að eldast, hvað gerist þá, þegar þetta er svona núna? Er heilsa okkar Íslendinga svona miklu lakari en annarra? Höfum við kannski borðað of mikinn súrmat í gegnum tíðina eða eitthvað slíkt?

Hitt málið sem ég vildi fara aðeins hér yfir, sem eru þessir gífurlegu fjármunir til aukningar til Landspítala -- háskólasjúkrahúss, sem eru hvorki meira né minna en 1,7 milljarðar. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þetta hér upp:

,,Lögð er til 735 millj. kr. fjárveiting til greiðslu uppsafnaðs rekstrarhalla Landspítala -- háskólasjúkrahúss sem kemur til viðbótar 930 millj. kr. fjárveitingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.``

Gerð var áætlun væntanlega af stjórn Landspítala -- háskólasjúkrahúss fyrir árið 2003 og nú kostar þetta 1,7 milljörðum meira. Maður spyr sjálfan sig: Hvað mundi fólk gera ef þessir peningar væru ekki til? Eða taka menn bara sénsinn, virðulegi forseti, og keyra bara fram úr og koma til þingsins og biðja um meiri peninga? Þetta er nákvæmlega eins og með lyfin. Þessu verður að linna. Og maður spyr líka sjálfan sig að því: Eru þeir sem slakastir eru í rekstrinum verðlaunaðir?

Nú veit maður um sjúkrahús úti á landsbyggðinni sem halda við sínar áætlanir og standa við þær en þeir sem fara fram úr koma bara og sækja peningana í vasann á framkvæmdarvaldinu og okkur hér. Er verið að verðlauna þá sem reka sínar stofnanir illa, eða hvað?

Ef þetta heldur áfram sem horfir, 1,7 milljarðar, í hverju er þetta fólgið? Er það í launum? Í launum hverra? Launum fólksins sem er að þrífa, þvo eða elda, eða hverra? Læknanna eða hjúkrunarliðsins? Hvað er svona mikið að fara fram úr? Hafa menn ekki áhyggjur af þessu? Þetta er ár eftir ár eftir ár. Nú er verið að leiðrétta þetta enn og aftur. Þetta kemur á þessum tíma, að haustinu, að stofnanirnar vilja fá meira fjármagn og þá er venjulega tekið eitthvað fyrir, annaðhvort eru það heilabilaðir eða geðfatlaðir, og sagt að það vanti meira í þennan málaflokk og annað slíkt til þess svona að leggja áherslu á kröfu sína.

Hér er líka annað, ég sé að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri fær 140 millj. kr. viðbót á sama tíma og lítið fer fyrir aukningu í heilsugæslunni. Það virðist vera eins og fjármagn til heilbrigðismála renni að miklu leyti eða að stórum hluta til stóru sjúkrahúsanna og heilsugæslan líði í þeim samanburði. Á þetta verða menn að horfa og leiðrétta. Þetta getur ekki gengið svona endalaust áfram.

Það er líka annað sem ber að hugsa í þessu að á fjárlögum næsta árs, eins og þekkt er, eru áætlaðir 110 milljarðar til heilbrigðismála og samkvæmt þessu mun sú tala hækka verulega, ef heldur fram sem horfir. Ég vil nú hvetja bæði fjmrh. og heilbrrh. að ganga fram í þessum málum. Það er alveg sama þótt það séu góðir tímar fram undan fyrir ríkissjóð Íslands, það er ljóst. Það munu verða mjög góð ár hér, þrjú eða fjögur, og það þarf oft sterk bein til að þola góðæri og kostnaður í svona málaflokkum fer auðveldlega langt, langt umfram það sem áætlað var. En hvað gerist þegar tekjur ríkisins dragast saman, ætla menn að skera niður, eða hvað ætla menn að gera?

Annað sem vekur athygli mína er stofnun sem er Reykjalundur, sem sér um endurhæfingu, ég þekki það af eigin raun að þar er fjárvöntun, ég sé hvergi neitt um þá stofnun hér í fjáraukalögunum. Það var ákveðinn samningur sem gerður var við þá og þeir hafa kvartað yfir því að ekki hafi verið staðið við hann. Og ég vildi spyrja hæstv. heilbrrh. hvað sé með það mál, ef hann er hér staddur.

En að lokum þetta án þess að fjölyrða mikið um það, ef ekki verður tekið á þessum málum, eilífri útgjaldaaukningu í þessum málaflokki, þá lenda menn uppi á skeri. Þetta er búið að ganga svona látlaust í sex, sjö ár og virðist ekkert lát á því og ég hvet bæði hæstv. fagráðherra og hæstv. fjmrh. að bregðast við á næstunni og láta menn standa við og halda sínar fjárhagsáætlanir. Auðvitað geta komið einhverjar breytingar á slíku en það er lágmark að þetta gangi ekki svona hér að við séum bara eins konar afgreiðslustofnun fyrir aukin fjárútlát og þinginu sé varla sagt hvers vegna.