Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:55:20 (1823)

2003-11-18 15:55:20# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir áhuga hans á rekstri ríkissjóðs og sérstaklega heilbrigðiskerfinu. Það er sjaldgæft að minnihlutamenn séu jafnmiklir áhugamenn um sparnað í ríkisrekstri og hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Vonandi eru tillögur hans þar að lútandi á þeim nótum.

Varðandi heilbrigðiskerfið almennt þá er stefnan einföld. Stefnan er einföld, hv. þm. Við ætlum að hafa hér besta heilbrigðiskerfi í heimi og við höfum það. Það er stefnan. Spurningin er svo hvað það kostar og hvað við ætlum að eyða miklum fjármunum til að svo sé?

Árið 2000 voru útgjöld til heilbrigðismála á sama verðlagi einhvers staðar nálægt 80 milljörðum kr. Á næsta ári eru þeir áætlaðir 110 milljarðar á verðlagi þessa árs. Það er því alveg ljóst hvert stefnir. Við erum með besta kerfið í heiminum og eigum að vera mjög stoltir af því. En við eigum líka að gæta þess að kostnaðurinn haldi ekki endalaust áfram að vaxa því ekki eru alltaf endalausir fjármunir til í ríkiskassanum eða í þjóðfélaginu til þess arna. Spurning er hvert það leiðir okkur síðan.