Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 15:57:15 (1824)

2003-11-18 15:57:15# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. ,,Við höfum besta heilbrigðiskerfi í heimi``, sagði hv. þm. Ég vona að rétt sé. Ég hef hins vegar því miður ekki í höndunum þær mælistikur að ég geti fullyrt svo. Ég veit hins vegar að heilbrigðiskerfið okkar er gott. En örugglega er hægt að bæta það. Ég deili hins vegar áhyggjum með hv. þm. af því að fjárstreymið er ekki eins og við viljum. Það getur vel verið að hv. þm. eigi því ekki að venjast að menn í minni hluta hafi áhyggjur af slíku. Ég get huggað hv. þm. með því að ég hef meiri reynslu af því að starfa í meiri hluta en minni hluta. Ég lít á starf mitt, hvort sem ég er í meiri hluta eða minni hluta, sömu augum. Við berum ábyrgð á því hvernig við förum með fjármuni almennings og við eigum að vanda okkur við það. En til þess að þetta sé hægt þá verðum við að hafa stefnu. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Meðan stjórnvöld hafa ekki stefnu þá mun þetta ekki breytast.