Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:44:59 (1833)

2003-11-18 16:44:59# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna í gær var dálítill stormur í vatnsglasi út af nánast engu. Úr því að það var það sem lá fyrir hv. þm. að tala um þá skal ég tala um það aftur.

Ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, getur að sjálfsögðu sent hvaða bréf sem er, að sjálfsögðu. Við í fjárln. höfum alltaf haft mjög skýra stefnu sem er náttúrlega beint í samræmi við það sem allir þekkja og allir vita varðandi stjórnarskrá landsins, þ.e. að vilji einhver í fjárln. hafa tal af einhverjum opinberum starfsmanni, stofnun eða fyrirtæki á vegum hins opinbera þá er sjálfsagt að verða við því. Aldrei hefur farið neitt á milli mála um það þannig að stormurinn sem stjórnarandstaðan stóð fyrir hér í gær var ósköp dapurlegur og sýnir mér kannski að þeim leiðist, vinum mínum. Það hlýtur að vera.

Við höfum hins vegar staðið fyrir því og munum standa fyrir því og hv. þm. má treysta því að þær upplýsingar sem stjórnarandstöðunni ber í fjárlagagerðinni mun hún fá. Aldrei hefur staðið neitt annað til. Staða fyrirtækja ríkisins mun verða kynnt fyrir þeim. Það hefur aldrei staðið neitt annað til. Þetta eru því algjörlega óþarfar áhyggjur. Ekkert slíkt tefur okkar vinnu og ekkert slíkt skyggir á okkar störf.