Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 16:54:54 (1838)

2003-11-18 16:54:54# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar hv. þm. bar mér heim sanninn um það að hann hefur ekki haft hugmynd um hvað hann var að tala um í ræðu sinni enda fór hann svoleiðis út og suður að hann lenti hvað eftir annað í þversögn við sjálfan sig, og þarf engum að koma á óvart. Þess vegna var minn eindregni vilji að reyna að draga hann að landi og benda honum á hvaða lög giltu um heilbrigðisþjónustu í landinu og eftir hverju ætti að fara svo að hv. þm. og varaformaður fjárln., væri ekki að spyrja og leita út og suður án þess að finna nokkuð hvar hann væri staddur.

Lögin um heilbrigðisþjónustu eru skýr og eftir þeim á að fara en ekki einhverjum geðþóttaákvörðunum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og varaformaður fjárln. ætlar kannski að fara að leita með öðrum flokki að einhverjum svona ímynduðum markaðslausnum í heilbrigðisþjónustunni. Það er kannski það sem er á ferðinni og þess vegna eru menn villuráfandi hér um stefnu í heilbrigðismálum.

Stefnan í heilbrigðismálum á að vera skýr og ákveðin og lúta að grunnþáttum heilbrigðiskerfisins eins og lög kveða á um. Hv. þingmenn hafa ekkert leyfi til þess að vera að hlaupa út um víðan völl frá þessum raunveruleika, ekki síst þegar hv. þm. eru í þeirri ábyrgðarstöðu að vera varaformenn fjárln. og bera ábyrgð á fjárlagagerðinni.

Þegar verið er að ræða um stöðu og rekstur heilbrigðisþjónustunnar er eins gott að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því á hvaða villuráfi þeir eru og að þeir átti sig á því hvaða lög gilda um heilbrigðisþjónustuna en elti ekki bara skottið á sjálfum sér án þess að vita hver vegferðin er. (Gripið fram í: Og stingi hausnum í steininn.) Og stingi hausnum í steininn.