Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:04:24 (1843)

2003-11-18 17:04:24# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. heilbrrh. að samþykkt hafa verið lög sem taka á einstökum og afmörkuðum þáttum í lögum um heilbrigðisþjónustu en grunnurinn stendur samt óbreyttur og þar af leiðandi sú stefnumörkun sem færð er til grundvallar þó svo að gerðar séu lagabreytingar til þess að reyna að leysa þar úr ákveðnum þáttum eins og þeir hafa þróast. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra en grunnurinn er samt sá sami.

Það hefði kannski verið ágætt úr því að hæstv. heilbrrh. er hér að hann hefði þá líka gert grein fyrir hvernig á að leysa úr stöðu heilsugæslunnar sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og þeim vanda að fjöldi manns er án aðgengis að heilsugæslu, reglulegri heilsugæslu og að heimilislæknum sem er gríðarlegt vandamál. Samkvæmt lögum er grunnheilsugæslan grunnstoð heilbrigðiskerfisins í landinu en er í verulegum molum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það væri ágætt að heyra hæstv. heilbrrh. koma inn á það og hvernig á að taka á þeim málum við fjárlagagerðina því að þetta er alvarlegt mál og ég býst við að hæstv. heilbrrh. deili með mér þeim áhyggjum sem þar eru á ferðinni.

Hitt er alveg hárrétt að fella þarf störf sérfræðilækna með eðlilegum hætti inn í heilbrigðisþjónustuna þannig að hver þáttur heilbrigðisþjónustunnar styðji þar annan og verði ein samfella af félagslega uppbyggðri heilbrigðisþjónustu í landinu og það vona ég að við hæstv. heilbrrh. verðum sammála um.