Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:08:37 (1845)

2003-11-18 17:08:37# 130. lþ. 29.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. 20 þús. millj. kr. skekkjumörk, 20 milljarðar frá upphaflegri áætlun til niðurstöðu. Er nema von að þingskörungar Sjálfstfl. þeir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Gunnar Birgisson komi hér upp og lýsi áfellisdómum sínum yfir stjórn ríkisfjármálanna og þó einkum um heilbrigðismálin.

Hæstv. heilbrrh. hefur líkt stefnu Samf. á því sviði við kanínu í hatti en ekki er hægt að skilja þingmenn Sjálfstfl. öðruvísi en svo að stjórn heilbrigðismála líkist því helst að þar fari hérar sem hlaupist á brott frá verkefnum dagsins. En það stoðar lítt fyrir þingmenn Sjálfstfl., þá hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og Gunnar Birgisson, að reyna að beina allri gagnrýninni og kastljósinu við þessa umræðu að ráðherra Framsfl., hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni, sem þó er hér sem er meira en sagt verður um ýmsa ráðherra Sjálfstfl. sem keyra fram úr í fjárlögum ársins og láta ekki svo lítið að mæta við umræðuna. Nei, það þýðir ekki að beina ljósinu að hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni því að auðvitað eru ríkisfjármálin á ábyrgð Geirs Haarde, fjmrh. Sjálfstfl., og auðvitað var það hann sem lagði fram þetta kolranga fjárlagafrv. sem hér þarf að hafa margra klukkutíma umræður um fjáraukalagafrv. við. Auðvitað eiga hv. þm. Sjálfstfl. að beina orðum sínum til hæstv. fjmrh. og spyrja hvers vegna í ósköpunum hann hafi ekki haft betri stjórn á málum en svo að þeir þurfi að koma í ræðustól á Alþingi við umræðu um fjáraukalög og lesa ríkisstjórninni pistilinn um hvernig hún fer fram í ríkisfjármálunum.

En það er virðingarvert að hæstv. fjmrh. er viðstaddur umræðuna og ég hef tekið eftir því sem nýliði í þinginu að hann er það jafnan þegar til umfjöllunar eru mál sem undir hann heyra og er full ástæða til að þakka fyrir það og ég vænti þess að ráðherrann komi hér síðar í umræðunni og gefi nokkrar skýringar á því sem hér er á ferðinni.

Sú umræða sem nú fer fram er 2. umr. um fjáraukalög og hún ætti í raun og veru ekki að þurfa að taka langan tíma. Henni hefði í rauninni átt að ljúka á svo sem eins og 15 mínútum. (Gripið fram í.) Þar ætti að fara fram 2. umr., ekki 1. heldur 2. umr. um óhjákvæmileg og ófyrirsjáanleg útgjöld á yfirstandandi ári og um það ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að vera neinn pólitískur ágreiningur. Ákaflega lítil umræða ætti að þurfa að fara fram um það og ég held að það segi alveg nægilega sögu hvernig haldið er á ríkisfjármálum af hæstv. fjmrh. að hér hefur staðið umræða í á fjórða tíma. Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að þeirri umræðu hefur ekki aðeins verið haldið uppi af stjórnarandstöðunni. Nei, heldur hafa þingmenn stjórnarliðsins og sjálfur varaformaður fjárln. séð ástæðu til að setja á langar ræður til að benda á það sem aflaga hefur farið og þau mörgu verkefni sem menn hafa ekki unnið að. Og er það nema von.

Við vorum með breytingar á útgjöldum í ríkisreikningi í fyrra, hygg ég frá því sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir. Upp á hvað? Voru það ekki 28 milljarðar? Við erum nú við 2. umr. um fjáraukalög --- og ég held að það væri nær að kalla þessi fjáraukalög aukafjárlög eða fjárlög ársins 2003, 3. hluta vegna þess að þau hljóða ekki upp á neitt smáræði. Fjáraukalögin sem verða afgreidd í ár, ef ekkert bætist við fram að 3. umr., eru upp á nærri 17 milljarða kr. Svo koma menn í ræðustól Alþingis og tala um allar hinar miklu framfarir í ríkisfjármálunum, já, já, bara 20 þús. millj. kr. skekkja, bara 20 milljarða skekkja, ekki einu sinni heldur aftur. Þetta er hvorki meira né minna en langt á 2. hundrað þús. kr. fyrir hvert einasta heimili í landinu, hátt í 200 þús. kr. sem koma hér inn sem einhvers konar aukalög. Auðvitað er eðlilegt að það sé rætt og það sé rætt fram og aftur vegna þess að ef hver og ein af þessum fjölskyldum hefði orðið á að misreikna sig um hátt í 200 þús. kr. í heimilisbókhaldinu sínu, þá hefði sú fjölskylda væntanlega þurft að ræða það og hafa af því áhyggjur. En hér eru menn bara að koma inn með í aukafjárlögum hátt í 200 þús. kr. reikning á hvert heimili í landinu. Og það er ekkert skrýtið að þingmönnum Sjálfstfl. blöskri þetta. Það er ekkert skrýtið við það, virðulegi forseti.

[17:15]

Þekkja menn þess einhver dæmi að það sé hægt að komast upp með þvílík og önnur eins frávik einhvers staðar í rekstri? Ég er hræddur um að það þætti a.m.k. hvergi boðlegt í atvinnulífinu að hafa 20 þús. millj. kr. skekkju og ég held ekki að börnunum sem fengu einkunnirnar sínar úr samræmdu prófunum í 7. bekk í dag hefði gengið mjög vel á prófinu ef reikningsskekkjan þeirra hefði verið upp á 20 þús. millj.

Fjáraukalög ársins í ár verða hærri en fjáraukalögin í fyrra og fjáraukalögin í fyrra voru hærri en fjáraukalögin þar áður. Vegna hvers? Vegna þess að hér er í engu verið að takast á við vandann. Vegna þess að hér liggur það fyrir að gríðarlegur tekjuauki ríkisins á síðustu árum hefur leitt til þess að útgjöldin bólgna út ár frá ári, vaxa og vaxa hröðum skrefum, og það er hvergi að sjá að það sé tekið á þeim vanda. Þvert á móti koma menn síðan inn með fjáraukalög upp á þúsundir, já og á annan tug þúsunda, milljóna króna á hverju einasta ári og telja ekki nema sjálfsagt mál að fá aukafjárveitingu upp á 16.800 millj.

Og hvað er á listanum? Á listanum í fjáraukalagafrv. eru sömu aðilarnir og öll undangengin ár í aðalatriðum --- nema kannski að öryrkjadómnum undanskildum. Aftur og aftur sömu aðilarnir vegna þess að ár eftir ár er ekki tekist á við verkefnin, er ekki tekist á við vandamálin, heldur treysta menn því bara að hljóðlega muni renna í gegn fjáraukalagafrv. og síðar verði einhvern tíma afgreiddur ríkisreikningur við litla athygli, og að ef menn fresti því að takast á við vandamálin geti menn haldið stóra og glæsilega blaðamannafundi um hið fína fjárlagafrv. þegar það er lagt fram.

Það er ástæða til að vekja athygli á þeim stærðum sem við erum hér að fjalla um. Hæstv. fjmrh. Geir Haarde gerði grein fyrir því við framlagningu fjárlagafrv. fyrir árið 2004 --- sem ég hygg að sé rétt að verði héðan af fjallað um sem fjárlög fyrir árið 2004, 1. hluta, því að það er alveg augljóst að við munum fá 2. hluta þessara fjárlaga hingað inn á næsta ári, algerlega fyrirsjáanlegt. Í því frv. eru sömu aðilar og við finnum í fjáraukalagafrv. fyrir þetta ár. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því að í sínum miklu áætlunum, þá vegna 300 þús. millj. kr. fjárfestinga í ál- og orkuiðnaði, ætlaði ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að mæta hinni miklu þenslu með því að draga úr framkvæmdum eitt árið um 2 þús. millj., 2 milljarða, og annað árið um 3 þús. millj, þ.e. 3 milljarða.

Virðulegur forseti. Hinar miklu sveiflujöfnunaraðgerðir sem hæstv. fjmrh. hefur verið að boða eru ekki nema brot af aukafjárveitingunum sem hann telur sjálfsagt að sækja hingað í þingið.

Virðulegur forseti. Ég hygg að þessi umræða hafi staðið nógu lengi, raunar allt of lengi, og við hana margt verið dregið fram. Ég vil bara leyfa mér að lýsa þeirri skoðun minni að hið háa Alþingi eigi ekki að verða við þeim beiðnum sem hér liggja fyrir í fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár. Ég tel að fjöldinn allur af þeim erindum sem hér liggja fyrir eigi heima í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og það skipti ekki meginmáli hvort aukafjárveiting verði samþykkt í desember eða hvort svipaðar heimildir verði veittar í fjárlögum fyrir næsta ár. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þá gæfu fjárlögin fyrir næsta ár betri og sannari mynd af ríkisrekstrinum og væru traustara og áreiðanlegra gagn, ekki bara fyrir ríkisvaldið heldur og fyrir atvinnulífið og samfélagið allt til að treysta á í áætlanagerð sinni. Í þeirri áætlanagerð, heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, komast menn ekki upp með 20 milljarða reikningsskekkjur.