Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:20:33 (1846)

2003-11-18 17:20:33# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frv., frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Vinna við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum kallaði á breytingar á skipulags- og byggingarlögum og var því þeirri nefnd sem skipuð var til að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum jafnframt falið að vinna síðargreint frv. Þá nefnd skipaði ég 24. október 2001 en henni var upphaflega falið það hlutverk að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í nefndinni áttu sæti, auk þeirra fulltrúa sem skipaðir voru án tilnefningar, fulltrúar frá Skipulagsstofnun, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtökum.

Í ákvæði III til bráðabirgða í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um endurskoðun þeirra laga en þar segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

,,Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2003. Við endurskoðunina skal sérstaklega kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma mat, sbr. 11.--13. gr., við leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum, í hvaða mæli skipulagsáætlanir geti komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvort færa beri ábyrgð á mati til framkvæmdaraðila í ríkari mæli en gert er í lögum þessum.``

Jafnframt var nefndinni falið að meta hvort taka þurfi til endurskoðunar önnur ákvæði laganna í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra.

Eins og ég sagði leiddi vinna við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum til þess að gera þurfti breytingar á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum, einkum vegna tengingar mats á umhverfisáhrifum við leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir og var því nefndinni jafnframt falið að vinna frv. þar að lútandi.

Það var mat nefndarinnar sem vann frumvörpin að það væru einkum ákvæði 11.--13. gr. og 16.--17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem taka bæri til sérstakrar skoðunar, en í þessum ákvæðum er fjallað um úrskurð Skipulagsstofnunar og umhvrh. um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, málskotsrétt vegna ákvörðunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, leyfi til framkvæmda og eftirlit með þeim.

Lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast í grundvallaratriðum á tilskipunum Evrópusambandsins nr. 85/337/EBE, samanber breytingu á tilskipun nr. 97/11/EB, sem er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ber því íslenskum stjórnvöldum að sjá til þess að ákvæðum tilskipunarinnar sé framfylgt hér á landi. Af sömu ástæðum hafa m.a. öll önnur ríki Norðurlanda fært í lög sín ákvæði tilskipunarinnar og öll önnur ríki Evrópusambandsins. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er ákvörðunarferli stjórnvalda hér á landi vegna mats á umhverfisáhrifum með öðrum hætti en tíðkast annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig er hér á landi gert ráð fyrir að það sé hluti af matsferli að fallast á eða leggjast gegn framkvæmd en annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu er sú ákvörðun í höndum lögskipaðra leyfisveitenda. Þetta atriði var ítarlega rætt í umhvn. Alþingis þegar lögin voru til afgreiðslu hjá Alþingi árið 2000 og varð niðurstaða þeirrar umræðu að bæta við fyrrnefndu ákvæði III til bráðabirgða í lögunum.

Við samningu frv. kynnti nefndin sér löggjöf um mat á umhverfisáhrifum á Norðurlöndum, þó einkum danska löggjöf, en í Danmörku er reglur um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að finna í skipulagslögunum. Þá voru við samningu frv. teknar til sérstakrar skoðunar þær efnis- og formkröfur um mat á umhverfisáhrifum sem leiða má af skuldbindingum Íslands að Evrópurétti samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og með hvaða hætti mat á umhverfisáhrifum framkvæmda fer fram hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Reglur um mat á umhverfisáhrifum byggjast á framangreindum tilskipunum Evrópusambandsins frá 1985 og 1987.

Af aðfaraorðum og ákvæðum tilskipunarinnar má ráða að matsferli því sem tilskipanirnar kveða á um sé fyrst og fremst ætlað að tryggja að við veitingu framkvæmdaleyfis liggi fyrir helstu upplýsingar um þá þætti umhverfisáhrifa framkvæmdar sem máli skipta og nánar er lýst í tilskipuninni og að tekið sé mið af þessum upplýsingum og samráði við stofnanir og almenning við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Aðildarríkjunum er í sjálfsvald sett hvort matsferlið sé fellt inn í gildandi ferli vegna veitingar framkvæmdaleyfis í aðildarríkjunum eða sérstakt ferli sett á fót vegna mats á umhverfisáhrifum. Þannig gerir tilskipunin ekki kröfu um að sett sé á fót sérstakt matsferli óháð leyfisveitingarferli vegna umsóknar um framkvæmdaleyfi, heldur eingöngu að þær upplýsingar um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar og það samráðsferli við stofnanir og almenning sem kveðið er á um í tilskipuninni séu undanfari ákvörðunar um framkvæmdaleyfi og að þessi atriði séu tekin til umfjöllunar við ákvörðun þar um. Með öðrum orðum skal leyfisveitandi vera meðvitaður um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda.

Tilskipanir Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um aðferð fremur en efnisviðmið. Af þeim má ráða að áherslan er lögð á þær upplýsingar og gögn sem fram koma í matsferlinu og að þær séu lagðar til grundvallar ákvörðun um framkvæmdaleyfi. Í því felst ekki að ákvörðun um framkvæmdaleyfi sé í samræmi við niðurstöðu matsins en hins vegar að efnislegu upplýsingarnar sem fram koma í matsferlinu séu grundvöllur ákvörðunar um framkvæmdaleyfi.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í þeim frv. sem ég mæli fyrir eru eftirfarandi:

1. Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

2. Matsferlið miði að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsi sem best og dragi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og geri grein fyrir athugasemdum almennings og umsagnaraðila við framkvæmdina, þannig að leyfisveitanda séu ljós öll efnisatriði málsins þegar fjallað er um leyfi til framkvæmda.

3. Álit Skipulagsstofnunar við endanlega matsskýrslu framkvæmdaraðila verði umfjöllun um matsferlið og niðurstöðu matsskýrslu.

4. Enginn vafi leiki á því að leyfisveitandi í samræmi við viðeigandi lög taki ákvörðun um hvort leyfa skuli viðkomandi framkvæmd, þegar fyrir liggur matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, og að leyfisveitanda beri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

5. Málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda verði bundinn við leyfi til framkvæmda á sveitarstjórnarstigi, þ.e. framkvæmda- og byggingarleyfis, og takmarkast við þá aðila sem eiga sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta, umhverfisverndarsamtök og önnur hagsmunasamtök eftir nánari reglum.

Ég mun nú, virðulegur forseti, gera grein fyrir helstu breytingum og nýmælum sem fram koma í frumvörpunum.

Samanber 1. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum eru gerðar nokkrar breytingar á markmiðsákvæðinu.

Lagt er til að eitt af markmiðunum sé að draga eins og kostur er úr umhverfisáhrifum framkvæmdar en rétt þykir að þetta komi efnislega fram í markmiðsgreininni.

Þá er lagt til að skilgreiningin á ,,umtalsverðum umhverfisáhrifum`` verði felld brott en til að slík skilgreining hafi einhverja þýðingu verður hún að vera upplýsandi og veita leiðbeiningu. Þar sem hugtakið er í sjálfu sér afar matskennt er ekki unnt að færa það í form skilgreiningar.

Þá er lögð til skilgreining á umhverfisverndarsamtökum en lagt er til að þeim sé veittur málskotsréttur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og til ráðherra, eins og ég mun síðar gera grein fyrir.

Um matsskýrslu og kynningu á henni er mælt fyrir um í 8. og 9. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum en þar eru lagðar til nokkrar breytingar er varða vinnslu og efni matsskýrslu. Er lögð áhersla á aukið samráð milli Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila um gerð matsskýrslu. Í matsskýrslu skuli m.a. koma fram tillögur framkvæmdaraðila um mótvægisaðgerðir og umhverfisvöktun þar sem það á við, og er það liður í að bæta matsskýrsluna og auka ábyrgð framkvæmdaraðila á matinu. Í þeim tilgangi að tryggja samræmi og gæði matsskýrslu framkvæmdaraðila er lagt til að í niðurstöðu matsskýrslu skuli geta um flokkun og viðmið umhverfisáhrifa einstakra þátta framkvæmdarinnar en að Skipulagsstofnun gefi út leiðbeiningar um þau. Framkvæmdaraðila ber við gerð matsskýrslu að hafa slíkar leiðbeiningar til viðmiðunar þegar vægi umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar í matsskýrslu er metið. Leiðbeiningum Skipulagsstofnunar er ætlað að auka skilvirkni og samræma vinnubrögð í matsferlinu og auðvelda Skipulagsstofnun og öðrum þeim sem eiga að fjalla um matsskýrsluna að gefa álit sitt á henni.

[17:30]

Þá er lagt til að framkvæmdaraðili sendi Skipulagsstofnun drög að matsskýrslu til athugunar og kynningar, enda fullnægi drögin samþykktri matsáætlun. Er það breyting frá því sem nú gildir þar sem framkvæmdaraðili sendir endanlega matsskýrslu til Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun skal kynna drög að matsskýrslu með auglýsingu í Lögbirtingablaði, dagblaði sem gefið er út á landsvísu og eftir því sem við á í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði. Kynningin á drögunum og réttur til athugasemda vegna þeirra fer fram með sama hætti og er samkvæmt gildandi lögum. Sú breyting er hins vegar lögð til að Skipulagsstofnun beri að senda framkvæmdaraðila að lokum þær athugasemdir og umsagnir sem stofnuninni hafa borist og vinnur hann, þ.e. framkvæmdaraðilinn, úr þeim göngum við gerð matsskýrslu. Framkvæmdaraðili tekur síðan afstöðu til þeirra í endanlegri matsskýrslu sinni til Skipulagsstofnunar.

Með þessu fær framkvæmdaraðili rétt til þess að ljúka matsskýrslu sinni á grundvelli þeirra athugasemda sem berast kunna frá almenningi og umsagnaraðilum í kynningarferlinu þannig að matsskýrslan verði eins vel útbúin og unnt er frá hendi framkvæmdaraðila áður en Skipulagsstofnun gefur álit sitt á henni.

Í 10. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um álit Skipulagsstofnunar. Eins og ég hef gert grein fyrir ákvörðunarferli stjórnvalda um mat á umhverfisáhrifum er það ákveðna ferli með öðum hætti hér en annars staðar. Sérstaða Íslands borið saman við önnur lönd er því mikil hvað varðar það úrskurðarvald sem Skipulagsstofnun hefur. Telja verður eðlilegra að hlutverk Skipulagsstofnunar sé að samræma gerð matsáætlana og matsskýrslna og treysta gæði þeirra. Þannig verði Skipulagsstofnun falið að fara yfir matsskýrsluna til að kanna hvort hún sé í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið um gerð, kynningu og efni matsskýrslu en að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að ákveða hvort hafna eða leyfa skuli framkvæmd, heldur sé slík ákvörðun í höndum viðkomandi leyfisveitenda.

Því er lagt til að í stað þess að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar gefi stofnunin álit sitt á endanlegri matsskýrslu framkvæmdaraðila. Í áliti Skipulagsstofnunar komi fram hvort skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum uppfylli skilyrði laganna og þeirra reglugerða og leiðbeininga sem settar eru á grundvelli þeirra og jafnframt hvort umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Sé það mat Skipulagsstofnunar að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða að gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir sem skilyrði en lagt er til í skýrslunni ber stofnuninni að tilgreina þessi skilyrði í áliti sínu og færa rök fyrir þeim. Þannig er gert ráð fyrir að stofnunin geti sett fram skilyrði í áliti sínu um mótvægisaðgerðir eða önnur skilyrði enda telji hún að með því megi draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Ákvæði um leyfisveitingar vegna laga um mat á umhverfisáhrifum eru í 3. og 13. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum og 3. gr. frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Lagt er til að leyfi til framkvæmda teljist framkvæmd á byggingarleyfi sveitarstjórna samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, svo og leyfi til starfsemi sem framkvæmdunum fylgir og önnur leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum. Hér er um að ræða upptalningu á þeim leyfum sem framkvæmdaraðili kann að þurfa að afla vegna matsskyldrar framkvæmdar sinnar en leyfi til matsskyldrar framkvæmdar er í höndum margra stjórnvalda. Sem dæmi má nefna að leyfi þarf iðnrh. fyrir raforkuverum sem eru 1.000 kW og stærri samanber 4. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, og til nýtingar auðlinda á jörðu, samanber 6. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og starfsleyfi Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar þarf fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun samanber 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Allir leyfisveitendur vegna matsskyldra framkvæmda skulu kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um hana. Leyfisveitendum ber þannig að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggur til grundvallar, þar með að ganga úr skugga um að framkvæmdin sé sú sem lýst er í matsskýrslu.

Sé leyfi veitt þar sem tekið er á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram kemur í álitinu þarf leyfisveitandi að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni. Um heimild viðkomandi stjórnvalda við útgáfu leyfis, m.a. til að taka upp í leyfi þau skilyrði sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar fer samkvæmt þeim sérlögum sem um þær leyfisveitingar gilda. Þar sem um er að ræða álit Skipulagsstofnunar bindur það ekki hendur þess stjórnvalds sem fer með útgáfuleyfi til framkvæmda. Lagt er til að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórna beri sveitarstjórn að taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við þær skipulagsáætlanir sem sveitarfélagið hefur tekið ákvörðun um. Þá ber sveitarstjórn eins og á við um aðra leyfisveitendur að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar og jafnframt að kanna hvort um sé að ræða sömu framkvæmd og lýst er í matsskýrslu.

Þar sem Skipulagsstofnun gefur álit sitt um matsskýrslu framkvæmdaraðila eins og áður segir er skýrslan þar með grundvöllur þess álits og þykir því eðlilegt að sveitarstjórn hafi kynnt sér matsskýrsluna áður en hún tekur afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Markmiðið er að sveitarstjórn taki upplýsta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar. Sveitarstjórn er heimilt að binda framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar og ef hún gerir það getur hún tekið skilyrðin upp í framkvæmdaleyfi að hluta eða að öllu leyti. Í slíkum skilyrðum getur m.a. verið kveðið á um mótvægisaðgerðir og samráð við tiltekna aðila en mótvægisaðgerðir eru skilgreindar sem aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif. Sveitarstjórn getur bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum sem kunna að vera sett í áliti Skipulagsstofnunar að því marki að aðrir leyfisveitendur til framkvæmda samkvæmt fjárlögum hafi ekki gert það. Hafi slíkur leyfisveitandi, t.d. iðnrh. við útgáfu leyfis fyrir raforkuveri bundið framkvæmdina einu eða fleiri skilyrðum sem fram hafa komið í áliti Skipulagsstofnunar ber sveitarstjórn ekki að taka þau skilyrði upp í framkvæmdaleyfi sitt þar sem annar leyfisveitandi hefur þegar tekið afstöðu til þeirra í sínu leyfi. Sveitarstjórn er þá bundin af því við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Þar sem Skipulagsstofnun veitir álit um matsskýrsluna er ekki þörf á að niðurstaða stofnunarinnar sé kynnt fyrr en við útgáfu framkvæmdaleyfis en það er ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis sem er kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og ég mun gera grein fyrir á eftir.

Um málskot til ráðherra og úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála fer samkvæmt a- og b-lið 12. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum og 2. gr. frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Lagðar eru til breytingar á kæruheimild vegna mats á umhverfisáhrifum sem tilkomnar eru vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í ferli matsskyldra framkvæmda. Eins og gerð hefur verið grein fyrir er lagt til að matsferlið verði nátengdara en áður leyfisveitingu viðkomandi framkvæmda. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum úrskurði Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum sem kæranlegur er til ráðherra heldur er þess í stað lagt til að stofnunin gefi álit sitt á matsskýrslu framkvæmdaraðila. Eftir þá breytingu væri óeðlilegt að það álit væri kært til umhvrh. eitt og sér heldur er lagt til í þess stað að það verði borið undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála í tengslum við kæru á ákvörðun sveitarstjórna um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis. Hér er því um nýtt hlutverk úrskurðarnefndar að ræða en hún mun áfram kveða upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál eins og hún hefur gert hingað til.

Heimilt er að skjóta til umhvrh. ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd sem tilgreind er í 2. viðauka samanber 6. gr. sé matsskyld og er það ekki breyting frá því sem nú gildir. Þá er hægt að kæra aðrar ákvarðanir Skipulagsstofnunar til ráðherra svo sem um endurskoðun matsskýrslu.

Lagt er til að réttur til að skjóta framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndar verði einungis bundinn við þá sem hafa sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Sömuleiðis ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi jafnframt sama rétt, enda séu félagsmenn samtakanna a.m.k. 50 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna eftir því sem fyrir kann að vera mælt í lögum eða samþykktum þeirra.

Lagt er til að sömu reglur eigi hér við um kæruheimild og kveðið er á um í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að öðru leyti en því að umhverfisverndarsamtök öðlast hér málsrétt. Umhverfisverndarsamtök eru skilgreind sem samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til um kæruheimild eru til samræmis við það sem gildir á Norðurlöndunum. Réttur til málskots hefur hvergi á Norðurlöndunm verið eins víðtækur og hér á landi. Þá er tekið af skarið um það, eins og í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, að ákvarðanir Skipulagsstofnunar verði aðeins kærðar til ógildingar eða breytinga. Það þýðir að ekki yrði heimilt að kæra ákvarðanir stofnunarinnar til staðfestingar einvörðungu.

Þá er lagt til að framkvæmdaraðila sé heimilt að kæra til ráðherra ákvarðanir Skipulagsstofnunar um synjun eða breytingar á matsáætlun og um að drög að matsskýrslu uppfylli ekki kröfur laganna. Lagt er til að frestur ráðherra til að úrskurða verði lengdur í tvo mánuði frá því að kærufrestur rann út en hann er nú fjórar vikur vegna ákvörðunar um matsskyldu. Jafnframt er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi allt að þrjá mánuði til að úrskurða frá því að henni berst mál í hendur og er því um að ræða lengingu á núgildandi fresti um einn mánuð.

Að lokum fer um skipun og samsetningu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt 2. gr. frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Gert er ráð fyrir að í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála eigi sæti fimm menn í stað þriggja nú en við úrlausn einstakra mála skuli nefndin að jafnaði vera skipuð þremur mönnum. Í viðamiklum málum skal nefndin hins vegar vera fullskipuð. Yfir nefndina skal skipaður forstöðumaður sem jafnframt er formaður nefndarinnar og hefur starfið að aðalstarfi og er það breyting frá því sem nú gildir en starf formanns er hlutastarf. Með þessu er ætlað að auka skilvirkni í starfi nefndarinnar. Hæstiréttur skal tilnefna þrjá nefndarmenn af fimm en tveir eru skipaðir af umhvrh. án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið efni þessara frumvarpa í megindráttum. Ég legg til að frumvörpunum verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.