Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 17:42:54 (1848)

2003-11-18 17:42:54# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tók eftir að í máli sínu kynnti ráðherra það að hún talaði fyrir báðum málunum í einu og ég geri ekki athugasemdir við það.

Ég vil í upphafi máls míns taka fram að Samf. vill eiga góða samvinnu við að ná fram bestu mögulegu lagasetningu um mat á umhverfisáhrifum og við vonum, af því að hér er margt sem þyrfti að vera öðruvísi að okkar mati, að um slíkt náist mjög góð samvinna í nefndinni.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum á að vera að vernda umhverfið þannig að ekki verði veruleg óafturkræf umhverfisspjöll. Því miður er þessu ábótavant í frv. Með leyfi forseta, bendi ég á b-lið 1. gr. þar sem segir: ,,að draga eins og kostur er úr umhverfisáhrifum framkvæmdar``. Það er nýmæli að þetta sé markmiðsgrein en það er einnig búið að fella burtu aðrar mjög mikilvægar skilgreiningar sem er missir að. Svona lög eiga að vera mælistika um áhrifin á umhverfið en skilgreiningu til að draga úr umtalsverðum umhverfisáhrifum vantar eins og ég hef sagt. Sú skilgreining var í 11. gr. laganna en hefur verið felld út.

Mig langar að vísa til b-liðar 8. gr. sem fjallar um 9. gr. laganna og í b-lið segir:

,,Lýsa skal þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið, þar á meðal umfangi, hönnun og staðsetningu, samræmi við skipulagsáætlanir, fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og tillögum um umhverfisvöktun þar sem það á við.``

Á móti þessu hefur 11. gr. verið felld niður sem eins og ég segi var mun skýrari og meiri að umfangi og skilgreiningum. Leiðbeiningar vantar alveg í frv. um hvernig komast á að niðurstöðu um umhverfisáhrifin. Hvergi er að finna leiðsögn um hvenær um er að ræða óafturkræf áhrif á umhverfið og í greinargerð segir að ekki sé unnt að færa matið á umtalsverðum umhverfisáhrifum í form skilgreiningar og þetta kemur mjög á óvart. Þess vegna sé það samkvæmt frv. fellt brott úr lögunum.

[17:45]

Þegar farið er yfir helstu breytingar á frv. samkvæmt yfirliti á bls. 11 þá er þar sagt í fimm liðum hvað sé að breytast. Ekki er fjallað um hvað vantar í lögin, t.d. að umtalsverð umhverfisáhrif eru felld út. Það er mjög flókið að vinna með þetta efni þannig að það er auðvitað krafa okkar þegar verið er að koma inn með svona miklar breytingar að bæði sé tilgreint í svona yfirliti hvað fer út og hvað er nýtt.

Bandarísk löggjöf um umhverfismat er eins konar vagga umhverfislöggjafar í heiminum og þar er kveðið á um að koma eigi í veg fyrir fyrir umtalsverð umhverfisáhrif eða mikil neikvæð áhrif á umhverfið. Svo ég, með leyfi forseta, vísi í enska textann þá eru þar notuð orð eins og ,,significant impact or effect`` og ,,significant adverse impact``. Þetta eru mjög sterkar yfirlýsingar þannig að þegar verið er að vísa til þess að þetta sé ekki að finna í öðrum löndum þá er það rangt því að þar sem þetta var sett í öndvegi þar eru þessi sterku orð.

En þegar slíkt er forsendan, eins og hér er talað um að sett sé í lög, þá myndast smátt og smátt viðmiðun með úrskurðum stjórnvaldsdómstóla og við eigum líka að hafa það að leiðarljósi í svona vinnu að tíminn breytir afstöðu og mati fólks. Það má nefna að ekki dytti okkur í hug í dag að stífla t.d. fyrir Þórsmörkina, það yrði nú þokkaleg veita þar, en fyrir einhverjum tíma áður fyrr hefði það kannski ekki þótt frágangssök þannig að við verðum alltaf að vera meðvituð um hvernig tíminn skýrir hlutina.

Það má spyrja hvort réttara sé að dómstóll skeri úr um hvort of mikil umhverfisáhrif fylgja framkvæmd og lögin eiga að gefa dómstólnum leiðsögn. Það á skerpa á 9. gr. laganna í stað þess að veikja hana þannig að hún kveði á um áhrif á umhverfið, bein og óbein, valkvæð og neikvæð, skammtíma- og langtímaáhrif, sammögnuð áhrif, varanleg og tímabundin áhrif, afturkræf og óafturkræf áhrif. Þannig ætti það að vera sett inn í lögin.

Sveitarstjórn er leyfisveitandi í þessum lögum. Pólitíska valdið verður hjá leyfisveitandanum og við í Samf. erum sammála því að ákvörðunarvald og ábyrgð sé flutt frá embættismönnum til stjórnmálamanna. Ákvörðun verði byggð á áliti Skipulagsstofnunar, álitið er þó ekki bindandi fyrir leyfisveitandann, sem getur í raun farið sínu fram þegar hann hefur kynnt sér álit og umfjöllun. Hann er ekki skyldugur að fara eftir neinu. Að kynna sér, taka afstöðu til, þetta eru allt of linar leiðbeiningar. Hins vegar er tekið fram hér að hvorki arðsemi né þjóðhagsleg áhrif framkvæmda séu talin eiga að vera hluti af mati á umhverfisáhrifum og þetta er góð og hárrétt breyting.

En í úrskurði ráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar var sérstaklega fjallað um arðsemi framkvæmda og þjóðhagsleg áhrif þeirrar framkvæmdar, og það verður að vera ljóst hvernig með skal fara ef leyfisveitandi setur slíkan ávinning framar áliti.

Hvað gerist í ferlinu þegar ráðherra en ekki sveitarstjórn er með leyfisveitinguna fyrir framkvæmd, samanber t.d. að það er kveðið á um það í orkulögum? Hvernig er þá ferli ákvörðunar og hvert má kæra það ferli? Þetta höfum við ekki getað. Auðvitað er mjög flókið að fara í gegnum þetta frv. og átta sig á hvernig lögin voru og hvaða breytingar verða en það er ekki auðvelt að sjá hvers slags ferli fer í gang ef ráðherrann á að veita leyfið. Ég bið ráðherra að fara yfir það vegna þess að það er mjög áríðandi að þarna sé líka óumdeilt ferli í gangi.

Áður tók Skipulagsstofnun ákvörðun en nú mun stjórnvaldið ákveða. Í heild eru þetta eðlilegri vinnubrögð. Stofnunin metur áhrifin en stjórnvöld bera ábyrgð á ákvarðanatöku. Ferlið verður að vera traustvekjandi. Það er stjórnvaldið sjálft sem ákveður hvort það geti réttlætt framkvæmd sem mikil umhverfisáhrif verða af, og þarna þarf að koma inn krafa um rökstuðning. Ef t.d. stjórnvald tekur ákvörðun í lokin á forsendum efnahagsáhrifa þarf að rökstyðja þá ákvörðun þannig að hægt sé að fara í og meta þann rökstuðning síðar.

Förum yfir ferlið. Drög að matsskýrslu eru send frá framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar og skal fullnægja matsáætlun. Drögin eru kynnt, athugasemdir berast, Skipulagsstofnun sendir framkvæmdaraðila athugasemdir og umsagnir. Framkvæmdaraðili lýkur sinni endanlegu matsskýrslu og sendir hana til Skipulagsstofnunar aftur, sem getur þá lagt mat á hvernig tekið var á athugasemdum og upplýsingum sem fram hafa komið. Ef veruleg frávik eru frá drögunum skal Skipulagsstofnun auglýsa og kynna matsskýrsluna svo öllum gefist kostur á að gera athugasemdir við hin nýju drög og stofnunin leitar að nýju umsagnar leyfisveitanda og annarra.

Þetta hljómar vel og rökrétt. En lítum aðeins á mats\-áætlunina. Hér vantar hins vegar allt bit. Leiðsögn og vald Skipulagsstofnunar á upphafsstigi varðandi matsáætlunina skortir, leiðbeininguna vantar. Og þetta er grundvallaratriði vegna þess að matsskýrslan á síðar að fullnægja matsáætluninni og þess vegna verður matsáætlunin mjög mikilvægt gagn í upphafsvinnslunni.

Skipulagsstofnun kveður ekki upp úrskurð en gefur álit. Það álit er ekki kæranlegt til umhvrh. eitt og sér heldur er leyfið borið undir úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarlög. Hér er búið að taka út úr þessum kafla að kveðið sé upp úr um hvort um umtalsverð umhverfisáhrif sé að ræða og enn vaknar spurningin: Hvað þegar ráðherra tekur ákvörðun um að leyfa framkvæmd?

Og aðeins af því að við erum líka að fara í gegnum skipulagslögin í þessari umræðu þá hlýt ég að benda á það að úrskurðarnefndin, sem skipar mjög stórt hlutverk í þessum lögum, á að vera fimm manna. Ráðherra skipar tvo, Hæstiréttur tilnefnir þrjá. Þessir tveir sem ráðherra skipar, þ.e. annar þeirra á að vera formaður nefndarinnar og jafnframt forstöðumaður nefndarinnar. Jafnframt á þessi eini, sem er bæði formaður og forstöðumaður, að ákveða hvenær málið er af þeirri stærðargráðu að það sé nóg að vera með þriggja manna úrskurðarnefnd. Og við verðum bara að horfa beint á það vegna þess hvernig þessi mál eru vaxin að með þessu er í raun og veru opnað fyrir það að þessi formaður/forstöðumaður geti ákveðið að hafa alltaf með sér hinn manninn sem umhvrh. skipar og einn skipaðan af Hæstarétti eða samkvæmt tilnefningu hans. Hann getur búið til þann meiri hluta sem honum hentar í máli ef hann er þannig innréttaður og ef það hentar.

Við skulum horfa á það við við erum að búa hér til lög sem eiga að standa í einhvern tíma. Þetta er mjög alvarlegt. Það hefði verið miklu eðlilegra að vera með einn af þeim sem tilnefndir eru af Hæstarétti sem formann. Ég kem örlítið nánar að skipulagslögum í lokin en þetta er mjög stórt mál.

Leyfisveitendur eiga að fjalla um og taka afstöðu til skýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar. Leyfisveitendur eru ekki bundnir af áliti Skipulagsstofnunar en ber, eins og áður segir, að fjalla um það og taka afstöðu til álitsins og matsskýrslunnar. Þetta er eins og annars staðar í frv. þar sem fjallað er um þetta efni mjög vægt og óljóst orðalag. Álit eða niðurstaða matsskýrslu bindur ekki hendur þess stjórnvalds sem fer með útgáfu framkvæmdaleyfisins samkvæmt þessu frv. og þar sem ákvörðun er tekin, jafnvel án tillits til álitsins, verður stjórnvaldið að rökstyðja ákvörðun sína og þess er ekki krafist í þessu frv.

Við í Samf. gerum kröfu um að ákvörðun sé ávallt gegnsæ og forsendur skýrar því það á að vera hægt að rökstyðja kæru. Þetta er grundvallaratriði því að dómstóll, ef mál færi fyrir dómstóla, mundi eingöngu fjalla um það hvort lagaákvæðum væri fullnægt. Þetta er eitt mjög stórt og mikið grundvallaratriði.

Leyfisveiting sveitarstjórna byggir á mati sem samkvæmt þessu frv. er óljósara en áður. Svona lög eiga að vera brjóstvörn fyrir allan almenning ef stjórnvöld og framkvæmdaraðilar ætla að vaða yfir hvað sem er með ávinning einan að leiðarljósi. Þess vegna er það svo mikilvægt að draga ekki vígtennurnar úr svona lögum, frekar að skerpa þau.

Málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda verður bundinn við leyfi til framkvæmda á sveitarstjórnarstigi, þ.e. framkvæmda- og byggingarleyfis, og takmarkast við þá aðila sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, umhverfisverndarsamtök og hagsmunasamtök eftir nánari reglum. En það eru ákvæði í viðaukum sem við ætlum að skoða betur í umhvn. og var erfitt að átta sig á hvernig gætu komið inn í þetta.

Til að ljóst sé hvernig leyfisveitandi á að haga sér þarf gegnsæi til þess að almenningur geti gert sér grein fyrir forsendum ákvörðunar, og til að gæta réttar almennings gagnvart leyfisveitanda þarf að tryggja að öllum röksemdum og forsendum hafi verið svarað.

Aðgengi almennings samkvæmt þessu frv. er skert frá því sem verið hefur. Bara þeir sem eiga lögvarinn rétt um matsskyldu og kærurétt eða náttúruverndarsamtök sem eru með yfir 50 manns geta kært. Þetta er verulegur réttur sem við gerum ekki lítið úr þegar við skoðum þetta frv. og það er mjög mikilvægt að þessir aðilar eigi aðkomu. En við verðum að spyrja: Er þetta nóg? Þetta virðist fremur þröngt.

Alls staðar annars staðar er verið að auka aðkomu almennings og ég spyr: Þarf almenningur ekki að eiga aðkomu t.d. ef stofnanir og stjórnvöld hafa lagt blessun yfir vafasama matsáætlun?

Búið er að samþykkja nýja tilskipun frá Evrópusambandinu, það var í maí í vor, og voru tilmæli sett fram um að hún verði samþykkt á árinu 2005. Hún byggir á Árósasamningnum sem við höfum ekki fullgilt þó að við séum aðilar að honum, samningi um að tryggja almenningi aðgengi að dómstólum í umhverfismálum. Það er mjög skrýtið, virðulegi forseti, að ekkert er minnst á þessa tilskipun í frv. og ekkert tillit tekið til hennar, og ég spyr af hverju? Af hverju er ekki litið á það sem er að verða samþykkt alls staðar í Evrópu og mun verða mótandi í lagasetningu af þessu tagi?

Ákvörðun sveitarstjórnar verður að vera vel undirbyggð. Og það vekur til umhugsunar, af því að sveitarfélögin hjá okkur eru svo smá og mörg þeirra eru mjög veik, og þá vaknar spurningin um hvort lítið sveitarfélag hafi bolmagn til að taka viðkvæmar ákvarðanir vegna leyfisveitinga. Hefur slíkt lítið sveitarfélag tök á að afla sér sérfræðiþjónustu sem til þarf til að vinna það sem sveitarfélaginu er ætlað að gera? Getur skipulagsnefnd þeirra metið það sem þarf að meta án aðkeyptrar aðstoðar? Ég óttast að svo sé ekki. Samfylkingin vill þess vegna skoða hvort setja eigi á laggir sjóð í þessu skyni sem smærri sveitarfélög geta sótt í og fengið framlag til sérfræðiþjónustu vegna svona sérfræðivinnu.

En það eru fleiri spurningar sem vakna, virðulegi forseti. Hver gætir þess að framkvæmd sé ekki í andstöðu við skuldbindingar samkvæmt alþjóðlegum samningum eða stefnu stjórnvalda í umhverfismálum? Í upphaflegu nefndartillögunum var umhvrh. falið það hlutverk og sveitarstjórn gert óheimilt að gefa út byggingar- eða framkvæmdarleyfi nema brugðist hafi verið við athugasemdum ráðherra á fullnægjandi hátt.

Ég vil líka taka fram að þegar skoðaðar eru breytingar sem fjallað er um hérna, þegar ég var að kvarta undan því áðan að ekki væri talað um það sem hefði verið breytt, þá vantar í frv. skilgreiningu á ,,verulegum umhverfisáhrifum``. Framkvæmd hlýtur að eiga að koma til kasta Alþingis ef matið segir að um veruleg umhverfisáhrif sé að ræða.

Ef við erum með smávangaveltur, ef sveitarfélag tekur ákvörðun um það að veita Skaftá í Langasjó, ef sveitarfélag ákveður að það verði í lagi að fara í virkjunarframkvæmdir við Torfajökul, ef sveitarfélag ákveður að það sé í lagi að virkja Jökulsá á Fjöllum og við værum ekki búin að bregðast við með því t.d. að grípa til verndunaraðgerða, er það þá þannig samkvæmt þessu ferli að sveitarfélagið beri allan þungann til enda? Er hvergi gert ráð fyrir að ákvörðun eða hugsanleg ákvörðun komi til Alþingis?

Bæði í rammaáætluninni um virkjanir, sem kynnt var á umhverfisþinginu og mjög athyglisvert var að skoða, og í náttúruverndaráætlun sem nýbúið er að vinna eru mælingar sem gefa til kynna styrk framkvæmda. Í rammaáætluninni er bæði flokkun og mæling. Í náttúruverndaráætluninni er byggt á tölulegu mati og eins konar rauðum flöggum eða fánum. Við hljótum að þurfa mælingar. Það er alveg útilokað annað en við þurfum með einhverjum hætti að fara í flokkun á hvað eru umtalsverð umhverfisáhrif. Við eigum líka að skoða hvort mat þeirra embættismanna sem um fjalla eigi að falla undir einhvers konar mælingu. Mæling sem segir að nú séu veruleg eða umtalsverð umhverfisáhrif og sem mundi þá kveða á um að málið eigi að koma til kasta Alþingis.

Bara til að draga fram þunga þessa máls þá spyr ég: Gæti leyfisveitandi ákveðið að virkja Gullfoss, ef honum sýndist svo, samkvæmt svona lögum? Við verðum að horfa á þetta skörpum augum til að vita hvaða slys geta verið í lagasetningunni. Það er mjög mikilvægt að benda á að verndar- og friðunarsvæði verða mjög mikilvæg samkvæmt þessu frv.

Að lokum: Ég hef dregið það fram að í þessu frv. eru jákvæðar breytingar, helst þó þær að stjórnmálamenn bera ábyrgð og embættismenn vinna sín verk en er ekki gert að taka ákvarðanirnar. En margar aðrar breytingar, eins og ég hef rakið hér, vekja efasemdir okkar og jafnvel andstöðu og við munum fara mjög vel yfir þetta í nefnd og freista þess að ná samstöðu um úrbætur og breytingar á frv.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Mörður Árnason muni fara vel í skipulagslögin. Ég hef nefnt hér úrskurðarnefndina, en stóru málin í skipulagslögunum eru annars vegar úrskurðarnefndin og svo framkvæmdaleyfið, að þegar farið er fram hjá eða gegn áliti verði að tryggja rökstuðning og skilgreiningu á verulegum umhverfisáhrifum svo unnt sé að meta þessi mál fyrir dómstólum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.