Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:05:51 (1857)

2003-11-18 19:05:51# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi málskotsréttinn vil ég benda á að í greinargerð kemur fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til á kæruheimildum eru til samræmis við það sem gildir á Norðurlöndunum. Réttur til málskots hefur hvergi á Norðurlöndum verið eins víðtækur og hér á landi. Við erum því að færa okkur nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum að þessu leyti.

Varðandi vanhæfi þá er þetta tvennt algerlega ólíkt, þ.e. að segja sem ráðherra í fjölmiðlum, opinberlega, að ráðherra telji ekki að ákveðin framkvæmd eigi að fara inn á hið friðaða svæði, sem er mjög vel skilgreind lína. Þetta er svona ,,kvantatíf`` yfirlýsing má segja, mjög vel skilgreind yfirlýsing. Þá er maður að dæma fyrir fram sem úrskurðaraðili. Það er allt annað og ekki hægt að heimfæra á Kárahnjúkavirkjun. Þetta er tvennt ólíkt. Þetta var líka sérstaklega skoðað í forsrn. í sambandi við vanhæfi. Það var ekki bara álit lögfræðinga okkar að ráðherra sá er hér stendur væri vanhæfur í umræddu máli heldur var það líka álit sérfræðinga forsrn. Það er alls ekki þannig að ráðherra sé almennt vanhæfur í öllum úrskurðum sé hann í tilteknum stjórnmálaflokki. Það er fráleitt að halda því fram.

Varðandi Þjórsárverin þá kemur mjög skýr yfirlýsing gagnvart ákveðinni framkvæmd inn á borð í kæru. Þannig er ekki hægt að líkja þessu saman.