Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:14:01 (1863)

2003-11-18 19:14:01# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:14]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir því að ráðherra semur ekki frumvörpin staf fyrir staf né greinargerðirnar. Það er bara ekki þannig sem stjórnsýslan vinnur. (MÁ: Ráðherra á vita hvað í þeim stendur.) Það er hárrétt, enda tékkaði ég sérstaklega á því hvort frv. og þessi málskotsréttur stæðist ekki þá tilskipun sem menn komu að í umræðunum. Lögfræðingurinn upplýsti mig sérstaklega um að svo væri. Þess vegna dró ég það inn í umræðuna.

Við teljum að eins og frv. er útbúið þá standist málskotsrétturinn hina nýju tilskipun líka en ég tel mjög eðlilegt að umhvn. skoði það sérstaklega. Ég heyri að það er mikill áhugi á því meðal þingmanna. Ég held að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir því að þótt ráðherrar séu allir af vilja gerðir þá semja þeir hvorki frumvörpin lið fyrir lið né greinargerðirnar sem þeim fylgja.