Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:25:13 (1865)

2003-11-18 19:25:13# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:25]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. er enn að ræða þetta með málskotsréttinn. Ég er búin að segja afstöðu mína til þess. Ég tel að eins og við komum því fyrir í frv. sé það mjög nægjanlegt eða góð aðkoma aðila og þetta er til samræmis við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um umhverfismat áhrifa enn á ný, þá tel ég að orðalagið ,,umtalsverð umhverfisáhrif`` sé ekki að hverfa úr þessum lögum og ekkert annað komi í staðinn. Það kemur einmitt annað í staðinn. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan. Ég vil benda á að í athugasemdum með frv. um 8. gr. segir um þær leiðbeiningar sem Skipulagsstofnun gefur út, með leyfi virðulegs forseta:

,,Umhverfisáhrif yrðu þannig flokkuð eftir gæðum, umfangi, lengd og tegund og innan hvers flokks væru sett fram ákveðin viðmið, svo sem jákvæð, neikvæð, lítil, veruleg og varanleg áhrif.``

Við erum því að fara út í nákvæmari leiðbeiningar varðandi matsferlið og niðurstöðu í mati á umhverfisáhrifum. Við erum að gera þetta með nákvæmari hætti að mínu mati en er í dag með þessari óljósu skilgreiningu, umtalsverð umhverfisáhrif, sem enginn getur áttað sig á og hvað þýðir eiginlega.

Þarna er verið að flokka umhverfisáhrifin í ákveðna dálka hverja fyrir sig. Ég átta mig því ekki alveg á þeirri umræðu af hverju þetta virðist vera svona mikið atriði í hugum hv. þingmanna. Ef eitthvað er þá erum við að gera þetta nákvæmara en það er í dag.