Mat á umhverfisáhrifum

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 19:27:25 (1866)

2003-11-18 19:27:25# 130. lþ. 29.8 fundur 301. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (matsferli, málskotsréttur o.fl.) frv., 302. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (úrskurðarnefnd, framkvæmdaleyfi) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[19:27]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn kemur ekki fram í máli hæstv. umhvrh. hver sé ástæðan er fyrir því að þrengja. Hún segir að það sé eðlilegt af því það sé svona á Norðurlöndum. En hver er ástæða hæstv. ráðherra fyrir að þrengja þetta? Er það vegna þess að þetta sé svona á Norðurlöndum, í Ástralíu eða eitthvað álíka, eru það rök í málinu? Það er það ekki. Það sér hver maður. Umhvrh. verður að gjöra svo vel að rökstyðja þessa þrengingu sína. Úr því að hæstv. ráðherra vill ekki gera það núna, þá verður hún að gera það síðar eða þá þeir menn sem samið hafa frv., sérfræðingar ráðherrans og lögfræðingar.

Og það kemur enn fyrir ráðherrann að hún virðist ekki hafa lesið þennan texta lögfræðinga sinna og sérfræðinga, því einmitt í þeirri grein sem hæstv. ráðherra vitnaði til sem ég hygg að hafi verið 8. gr. sem er um breytingu á 9. gr. laganna, þar las ég sérstaklega fyrir hæstv. umhvrh. í ræðu minni áðan hvernig hún var og hvernig hún er orðin núna. Ég rakti það í andsvörum áðan hvernig sá kjarni hefur verið tekinn út og útvatnaður og soðinn niður í niðursuðudós sem síðan á að opna í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og ráðherra ætlar sér sjálfur að ráða yfir á hverjum tíma með reglugerð sem hann getur breytt frá degi til dags. Ef þetta er ekki að draga tennurnar úr frv. sem samið var til varnar náttúru landsins og til að tryggja að ferlið væri gagnsætt og öllum væri ljóst hvað í því felst, þá veit ég ekki hvað það er. Og ég skil ekki enn þá og hef ekki enn þá fengið skýringar á því hvers vegna þessi tiltölulega góði, almenni mælikvarði getur ekki verið inni, þ.e. ,,umtalsverð umhverfisáhrif``. Hvað á þá að koma í staðinn fyrir hann? Því það er engin lýsing á því í athugasemdunum með frv., engin lýsing er á því í ræðu hæstv. ráðherra eða andsvörum hennar áðan.