Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:14:42 (1876)

2003-11-18 20:14:42# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hvert var opinbera starfsfólkið að flýja, hvert var það að flýja? Það var auðvitað að flýja í önnur störf í þjóðfélaginu á hinn frjálsa markað væntanlega, þar sem það bar saman launin. Og menn þurftu að hækka launin til að mæta því. En menn gleymdu starfskjörunum. Menn gleymdu t.d. lífeyrisréttindunum sem opinberir starfsmenn kunna ekki að meta. Þau hafa hækkað, ég hef ekki alveg nýjustu tölurnar, en þetta eru sennilega 170 milljarðar sem lífeyrisskuldbindingar vegna B-deildarinnar einnar sér hafa hækkað. Það eru 8 milljónir á hvern starfandi ríkisstarfsmann sem lífeyrisskuldbindingarnar hafa hækkað hjá ríkinu og hæstv. fjmrh. er stöðugt að moka í þetta, í þá hít og hefur ekki undan. Þetta er milljón á hvern starfandi mann á landinu. Þannig að auðvitað hljóta menn að taka allt með, lífeyrisréttindin og öll önnur starfskjör inn í myndina þegar þeir bera saman laun milli stétta, ekki bara launin ein sér. Fólkið flúði frá ríkinu til annarra starfa vegna þess að það bar saman launin.