Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:36:30 (1880)

2003-11-18 20:36:30# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman sagði að ef þetta frv. gengur í gegn, þýddi það auknar launakröfur. Ég vil spyrja hv. þm. að því hversu mikils virði þetta ákvæði er fyrir opinbera starfsmenn, hvað eru þetta mörg prósent af launum þeirra? Getur hv. þm. líka slegið því föstu hversu mikils virði aukin lífeyrisréttindi eru? Eða það að vinna hjá atvinnurekanda sem nokkuð örugglega fer ekki á hausinn eins og kemur fyrir annars staðar í atvinnulífinu? Hvers virði eru þessi réttindi öllsömul? Geta þá opinberir starfsmenn sætt sig við lægri laun?

Síðan kom hv. þm. með athugasemd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var líka með, að hæstv. fjmrh. ætti að óttast stéttarfélögin í væntanlegri kjarabaráttu, vegna þess hve ógnvænleg þau væru. Er það virkilega svo að hæstv. fjmrh., sem er að semja fyrir hönd skattgreiðenda í landinu, því það eru jú hinir Íslendingarnir sem greiða laun opinberra starfsmanna beint eða óbeint, á hann virkilega að óttast stéttarfélögin?