Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:49:49 (1886)

2003-11-18 20:49:49# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. leggur mér orð í munn. Ég nefndi aldrei orðið skattsvik í ræðu minni. Ég sagði að það væri ljóst að allar launagreiðslur vinnuveitandans hjá opinberum starfsmönnum skiluðu sér upp á hverja einustu krónu. Það liggur fyrir, er það ekki? Það er hægt að fullyrða. Ég sagði einungis að slíkt væri erfitt að fullyrða um allar aðrar starfsstéttir, og er það ekki? Ég held að það sé ekki nein ásökun í því fólgin, það er bara einfaldlega staðreynd að það eru ekki sömu tæki í höndum manna til þess að fullvissa sig um að allir hlutir skili sér með sama hætti og þegar ríkið sjálft, sem jafnframt innheimtir skattana, greiðir launin.

Mér finnst þetta tal um að jafna aðstæðurnar og samræma þær við almenna vinnumarkaðinn dálítið háskalegt, vegna þess að það liggur í því fólgin sú meinlega rökleysa að þetta verði einhvern tíma algjörlega sambærilegt. Það verður það ekki. Ríkið sem vinnuveitandi og opinber störf af ýmsu tagi verða aldrei nákvæmlega sambærileg, hvað varðar inntak, eðli, réttindi og skyldur, á við það sem er úti á almennum vinnumarkaði. Það liggur í hlutarins eðli. Þess vegna verða menn að setja því ákveðin takmörk hversu langt er hægt, og yfir höfuð skynsamlegt og rökrétt að nokkurn tíma verði hægt, að ganga í því að leggja þetta alveg að jöfnu og láta sömu reglur gilda um þetta.

Ég er alveg sannfærður um að það er alls ekki skynsamlegt. Það er þvert á móti skynsamlegt að átta sig á því að þarna er í mörgum tilvikum grundvallarmunur á eðli starfanna og því í hvaða tilgangi þau eru unnin o.s.frv. og það er eðlilegt að sá munur endurspeglist að einhverju leyti í því að gengið sé með sérstökum hætti frá ráðningarkjörum og starfsskilyrðum opinberra starfsmanna.