Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 20:52:37 (1888)

2003-11-18 20:52:37# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[20:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er eins gott að andsvörin eða möguleikarnir á svörum séu ekki tíu því að hv. þm. kemur alltaf upp í hverri ferð og snýr út úr einhverju nýju og leggur manni ný og ný orð eða nýjar og nýjar meiningar í munn. Heyrði einhver mig segja það hér að ég væri þeirrar skoðunar að laun opinberra starfsmanna ættu að vera lægri en annarra á vinnumarkaði? Það sagði ég aldrei.

Það sem við höfum verið að reyna að berja inn í hausinn á hv. þm. Pétri Blöndal er að það er tiltekið samhengi hlutanna. Þetta hangir saman, laun, réttindi og skyldur, og hefur alltaf gert. Menn muna eftir því stundum og mönnum hentar að hampa því stundum, þegar þeir eru að reyna að fá fólk t.d. til að sætta sig við lakari launakjör til langframa vegna þess að þeir njóti í staðinn réttinda sem séu verðmæt. Svona hefur þetta löngum gengið. Það er þetta samhengi hlutanna, þessi heildstæða hugsun sem menn verða að reyna að hafa í huga. Og það á ekki að vera að reyna að taka menn hér upp og snúa út úr orðum þeirra þegar það liggur algjörlega ljóst fyrir í grundvallaratriðum hvað menn eru að reyna að segja, að tala um þessa heild. Mér finnst hv. þm. eigi að reyna að venja sig af því að gera tilraunir af því tagi sem hann var hér uppi með. Núna síðast t.d. að ég væri sérstaklega þeirrar skoðunar að laun opinberra starfsmanna ættu bara beinlínis að vera talsvert mikið lægri. Í næstu umferð hefði hann getað komið upp og spurt: Hve miklu lægri, 20%, 30% eða eitthvað svoleiðis? Og það hefði kannski sýnt fáránleikann í þessu öllu saman.

Ég var sem sagt hvorki hér fyrr að bera einhverjum á brýn skattsvik né er ég þeirrar skoðunar að laun opinberra starfsmanna eigi að vera eitthvað tiltekið miklu lægri en annarra, svo það sé algerlega á hreinu.