Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 18. nóvember 2003, kl. 21:06:53 (1890)

2003-11-18 21:06:53# 130. lþ. 29.10 fundur 307. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (uppsögn) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ljóst og tel brýnt að það komi fram við 1. umr., að ef hæstv. ráðherra hefur gert sér vonir um það, miðað við mál mitt áðan, að ég styddi þetta frv. þá mun ég ekki greiða þessu frv. atkvæði og ekki styðja það. (SJS: Þar kom það.) Ég held því að það sé alveg ljóst að ráðherrann verður að hafa það í sínu farteski.

Ég mun vinna að því í efh.- og viðskn. að upplýsa allar hliðar þessa máls. Ég tel að það séu það margir annmarkar á frv. sem hér er til umræðu að brýnt sé að það fái ítarlega umfjöllun í efh.- og viðskn.

Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn í að draga þetta frv. til baka og vinda sér í að ræða það með þeim hætti sem vera ber, við opinbera starfsmenn og samtök þeirra, þ.e. í samráði. Það verður að líta til þessa máls og skoða það í því ljósi.

Mér finnst það mjög vel til fundið sem fram kemur í yfirlýsingu áðurnefndra samtaka þar sem þau tala um einhliða valdboð. Þau telja það skjóta skökku við að ríkið skuli með sveitarstjórnarlögum setja þá skyldu á herðar sveitarfélaga að semja við stéttarfélög um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga en áskilja sér vald til þess að ákveða slíkt einhliða og án samráðs. Þau vísa í ákvæði í stjórnarskránni sem sett voru 1995, sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í. Þar segir:

,,Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.``

Eigum við ekki að virða þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, herra forseti?