Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:01:16 (1908)

2003-11-19 14:01:16# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), AKG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Eitt stærsta vandamál sem við glímum við í íslensku skólakerfi er brotthvarf nemenda og er talið eitt helsta úrlausnarefni skólayfirvalda að leita lausnar á því. Meðal leiða sem nefndar hafa verið til líklegra úrbóta eru fjölbreyttari námsleiðir þannig að sem flestum gefist kostur á að þroska mismunandi hæfileika sína.

Verk- og tækninám hefur látið undan síga víðs vegar um land, m.a. vegna þröngra skorða sem skólum eru settar. Vandséð er af þeim breytingartillögum sem settar eru fram af verkefnishópi ráðherra í hvaða farveg verk- og tækninám á að fara þar sem ekkert er á slíkt nám minnst í skýrslu til ráðherra.

Þegar hefur verið mörkuð braut til styttingar námstíma með því að auðvelda bráðgerum nemendum að flýta fyrir sér strax í grunnskóla og taka framhaldsskólaeiningar þar og halda síðan áfram að ráða hraða og umfangi náms í áfangaskólunum. En nú er látið eins og möguleikinn til þriggja ára námstíma til stúdentsprófs sé ekki fyrir hendi. Hann er ekki fyrir hendi í bekkjakerfinu en er það vissulega í áfangaskólunum og er einn helsti kostur þess kerfis auk þess sem nemendur geta viðað að sér fjölbreyttri þekkingu. Æskilegt er að gera þennan möguleika einnig raunhæfan í eldri gerðum skóla með hefðbundnu bekkjakerfi en ekki með því að rýra menntunina í leiðinni.

Skólakerfið þarf alltaf að vera í endurskoðun en ekki með skammtímasparnað að höfuðmarkmiði. Samfylkingin er að skoða námsleiðir í framhaldsskólum, m.a. námstíma til stúdentsprófs, en það hefur aldrei hvarflað að okkur að það leiddi til sparnaðar á fjárlögum. Þvert á móti teljum við að veita þurfi aukið fjármagn til ýmissa þátta skólastarfs. Sparnaður felst í því að nemendur brautskráist fyrr úr skóla og gerist fullgildir þátttakendur í atvinnulífi.