Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:09:30 (1912)

2003-11-19 14:09:30# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ætla má að beinn ávinningur verði af styttingu framhaldsskólanáms. Í fyrsta lagi má ætla að stytting námsins úr fjórum árum í þrjú verði þjóðhagslegur ávinningur vegna aukinnar framleiðni því ungt fólk kæmist ári fyrr út á vinnumarkaðinn, hvort heldur eftir framhaldsskóla eða háskólanám. Einnig hlýtur það að teljast þjóðhagslegur ávinningur að kostnaður við styttra nám verður óneitanlega lægri.

Mikilvægt er að breytingarnar verði ekki til þess að námskröfur til stúdentsprófs verði minni en nú eru. Íslenskir stúdentar mega ekki verða síður samkeppnishæfir til háskólanáms en nú er, því með aukinni tæknivæðingu gerir atvinnulífið æ meiri hæfniskröfur til fólks.

Verði námstími í framhaldsskóla styttur má gera ráð fyrir stífara námi og að eitthvað af námsefni færist í efstu bekki grunnskólans. Breytingin gæti haft áhrif á atvinnulífið því framhaldsskólanemar geta þá síður stundað hlutastörf en nú er. Telja má víst að nemar vilji stunda hlutastörf eftir sem áður til að auka tekjur sínar. Hins vegar er líklegt að skólaárið lengist frá því sem nú er og sú breyting hefði veruleg áhrif á atvinnulífið vegna sumarvinnu nemenda. Minni sumarvinna nemenda gæti einnig valdið röskun í íslenskum ferðamannaiðnaði þar sem vinnuvikum fækkar og vegna þess að skólahúsnæði og heimavistir eru víða notaðar sem gistirými á sumrin.

Stytting námstíma til stúdentsprófs mun þó hvorki færa atvinnulífinu né þjóðarbúinu ávinning nema sú breyting verði faglega unnin og heildstætt í samvinnu við fagfólk á öllum skólastigum. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að breytingar verði ekki gerðar á námstíma framhaldsskóla fyrr en fagleg úttekt á skólakerfinu hefur farið fram. Að þeim forsendum gefnum tel ég jákvætt að stefna til þess að ná fram styttingu á námstíma.