Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:11:36 (1913)

2003-11-19 14:11:36# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Enn fjölgar málum í þingsal þar sem stjórnarflokkarnir ganga ekki í takt. Það er augljóst á málflutningi hv. þm. Framsfl. sem hér hafa talað að hrifning er ekki mikil á framgöngu hæstv. menntmrh. í þessu máli. Það er ljóst að hv. þm. Dagný Jónsdóttir benti á að þetta mál lyktaði allt mjög af sparnaði. Slíkt er að sjálfsögðu ekki markmið þeirra sem talað hafa fyrir því að stytta nám í framhaldsskólum og það er sérkennilegt nú, árið 2003, að heyra hvern hv. þm. af öðrum koma hér upp og tala um nám í framhaldsskólum eins og ekki sé til annað nám en til stúdentsprófs og það er auðvitað meginvandinn í framgöngu hæstv. ráðherra að eingöngu er verið að tala um það að stytta nám til stúdentsprófs. Það er ekki einu sinni litið heildstætt á nám í framhaldsskólum. Ekki er verið að velta fyrir sér öðru námi sem fram fer í flestum framhaldsskólum landsins sem er ekki bara nám til stúdensprófs. Það er ekki verið að velta upp þeim vanda sem m.a. getur komið upp í því sem menn eru búnir að vera að skipuleggja til fjölda ára, að láta ýmislegt starfsnám vera í samvinnu við stúdentsnámið. Þegar stúdentsnámið verður stytt þarf væntanlega að grípa til aðgerða á þeim námsbrautum einnig. Ekki eru gerðar tillögur um það hvernig standa eigi að slíku.

Nei, hæstv. ráðherra, það er enginn misskilningur hér á ferðinni. Það liggur fyrir tillaga um að stytta nám til stúdentsprófs. Það er hins vegar verið að ræða það í ýmsum starfshópum hvernig að því skuli staðið. Og hæstv. ráðherra, tímaramminn sem settur er gagnvart þessu máli er ekki slíkur að verið sé að biðja um mikið og náið samstarf um það hvernig við eigum að bæta framhaldsskólastigið eða hvernig við ætlum að bæta skólakerfið í landinu sem er auðvitað hið stóra verkefni. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jónssyni um það að brottfallið í framhaldsskólunum hefði að sjálfsögðu átt að vera forgangsverkefni hjá hæstv. ráðherra. Þá hefði verið eðlilegt að setja tímarammann um áramót til að leggja fyrir tillögur sem eru raunhæfar til árangurs.