Stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:25:48 (1918)

2003-11-19 14:25:48# 130. lþ. 31.1 fundur 51. mál: #A stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur beint svolátandi fyrirspurn um stuðning við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum til mín:

Hvað líður skipan og störfum nefndar sem ríkisstjórninni var falið að setja á stofn samkvæmt þingsályktun sem Alþingi samþykkti 15. mars sl., en nefndinni var ætlað að gera tillögur ,,um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu``? eins og þar segir.

Með bréfi, dags. 12. júní, fól forsrn. iðn.- og viðskrn. framkvæmd þál. um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi. Iðn.- og viðskrn. óskaði með bréfi, dags. 24. júní 2003, eftir áliti Byggðastofnunar á því hvernig best væri staðið að framkvæmd á ályktun þingsins. Byggðastofnun skilaði áliti sínu þann 11. nóvember 2003. Í álitinu kemur m.a. fram að byggð standi óvíðar veikar en í Árneshreppi á Ströndum. Mikil íbúafækkun hefur orðið á undanförnum árum og fækkaði íbúum úr 109 árið 1992 í 59 árið 2002. Aðalatvinnugrein er sauðfjárrækt sem hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum eins og kunnugt er. Einnig er nokkuð um sjósókn á smábátum í hjáverkum, m.a. grásleppuveiðar. Hefur landaður afli á Norðurlandi farið vaxandi á síðustu árum.

Landsamgöngur eru óvíða erfiðari en við og í Árneshreppi. Er vegurinn norður eftir oftast alveg lokaður vegna snjóalaga í nokkra mánuði á hverjum vetri. Er Árneshreppur eitt örfárra sveitarfélaga sem fengið hefur styrk vegna erfiðra vetrarsamgangna á síðustu árum. Það er mat Byggðastofnunar að eigi að stöðva þá þróun sem verið hefur í Árneshreppi á undanförnum árum, þurfi að grípa til margháttaðra ráðstafana á sviði samgöngumála, atvinnumála, umhverfismála, mennta- og menningarmála og e.t.v. á fleiri sviðum mannlífsins.

Byggðastofnun leggur til í áliti sínu að sett verði á stofn nefnd sem sjái um að kalla til starfa fulltrúa allra sem málið varðar beint og óbeint. Leitað verði tilnefningar frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Byggðastofnun, landbrn., menntmrn., samgrn. og umhvrn. auk fulltrúa heimamanna.

Með bréfi 12. nóvember 2003 fól iðnrh. Byggðastofnun að annast skipun nefndar er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu í samræmi við ofangreinda þál. Byggðastofnun er einnig falið að hafa umsjón með störfum nefndarinnar. Óskað er eftir að skipun nefndarinnar og störfum verði hraðað sem kostur er og að hún skili tillögum til iðnrh. eigi síðar en í lok maí 2004.

Það er augljóst að þetta mál hefur allmikla sérstöðu eins og fram hefur komið í inngangsorðum fyrirspyrjanda og þeim svörum sem ég hef lesið en í þeim efnum hef ég nánast alfarið stuðst við frásögn iðnrn., byggðaráðuneytis og Byggðastofnunar.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég er sammála því mati Alþingis sem er mjög sértækt að gera sérstaka ályktun um þetta sveitarfélag eitt og sér. Um það var samstaða hér. Ég tel að þetta sveitarfélag, mannlífið þar, forsagan öll, ég tala nú ekki um uppruna hv. þm., hafi mikla og sérstaka þýðingu og því sé ekki bara verjandi heldur æskilegt að við sameinumst um það og stuðlum öll að því að það megi vernda það mannlíf og samfélag sem þarna er um að ræða. Ég vil fyrir mitt leyti, þó að málið sé með þessum hætti í höndum iðn.- og byggðaráðuneytis og Byggðastofnunar, lýsa því yfir að ég mun styðja við málið eins og ég get úr forsrn. a.m.k. meðan ég sit þar. En það getur þrengst um mig eins og þá í Árneshreppi í komandi tíð.