Stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:32:18 (1921)

2003-11-19 14:32:18# 130. lþ. 31.1 fundur 51. mál: #A stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka þessa umræðu og fagna sérstaklega yfirlýsingum hæstv. forsrh. um málið. Ég er honum innilega sammála um að þetta byggðarlag, Árneshreppur á Ströndum, hefur allmikla sérstöðu og það er mjög æskilegt frá okkar sjónarhóli allra að vernda og verja þetta mannlíf.

Sérstaklega er ánægjulegt að nefna í þessu sambandi að sem betur fer hefur það gerst að ungt fólk hefur í nokkrum mæli verið að setjast að í Árneshreppi og sýnir auðvitað bæði tryggð þess fólks við uppruna sinn og líka trú á möguleikana á því svæði.

Það eru gríðarlega mikil verðmæti í byggð eins og Árneshreppi á Ströndum, verðmæti sem mega ekki glatast og verðmæti sem svona ríkt samfélag eins og Ísland á sannarlega að stuðla að að verði varið og verði eflt á komandi árum. Við erum velmegandi þjóð og við eigum að sýna reisn varðandi þetta mál og þegar við erum að skipa málum hvort sem er í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum, uppbyggingu samgöngumála eða aðra skylda hluti, þá eigum við auðvitað að viðurkenna sérstöðu sveitarfélaga eða byggðarlaga á borð við Árneshrepp og við eigum þess vegna að gefa þeim önnur færi en við almennt gefum í landinu.