Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:46:41 (1928)

2003-11-19 14:46:41# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Í seinni lið þessarar spurningar er fjallað um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og einnig er verið að ræða um aukin verkefni til sveitarfélaga. Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður finnst mér auðvitað nauðsynlegt að skoða það að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaga, en eins og staðan er í dag með fjárhag sveitarfélaga þá tel ég að ekki komi til greina að fleiri verkefni verði flutt til sveitarfélaga nema stórauknir tekjustofnar fylgi með.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar er fjárhagsstaða margra sveitarfélaga mjög slæm. Og það var eftirtektarvert í kjördæmavikunni að allir fulltrúar sveitarfélaga sem komu og ræddu við okkur þingmenn Norðaust. kvörtuðu yfir hve framlög frá jöfnunarsjóði hafi lækkað á þessu ári. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hefur verið tekin ákvörðun innan ríkisstjórnarinnar eða mun hæstv. ríkisstjórn beita sér fyrir því að 700--1.000 millj. verði bætt inn í jöfnunarsjóðinn núna til þess að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti greitt út svipað og gert hefur verið undanfarin fjögur ár til sveitarfélaganna í landinu?