Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:54:15 (1934)

2003-11-19 14:54:15# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég geri eins og aðrir og þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál. Vegna þeirra spurninga sem til mín hefur verið beint eða athugasemda sem gerðar hafa verið vil ég nefna sérstaklega útsvarstekjur sveitarfélaga. Miðað við nokkur ár að undanförnu hafa útsvarstekjur sveitarfélaganna bólgnað út langt umfram það sem verðlagsforsendur hafa gefið tilefni til. Það hefur náttúrlega gerst vegna þess að hér hefur raunkaupmáttaraukningin orðið yfir 30% og það hefur auðvitað skilað sér í útsvarstekjum sveitarfélaganna og liggur fyrir, og það veit hvert mannsbarn í rauninni.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði hvort tekjuskiptingin væri eðlileg. Það er gríðarlega stór spurning sem ég vil ekki svara endanlega hér á þeim tveimur mínútum sem ég hef. Á hinn bóginn verður líka að hafa í huga að það skiptir máli hvernig sveitarfélögum er stjórnað. Það er ekki bara hvernig tekjuskiptingin er. Ég get nefnt sem dæmi sveitarfélag sem ég stýrði. Þegar ég fór frá því sveitarfélagi voru nettóskuldir sveitarfélagsins og stofnana þeirra 2 milljarðar á núgildandi verðlagi. Í þessu sama sveitarfélagi þrátt fyrir bólgnun á útsvarstekjum eru nettóskuldirnar 44 milljarðar (Gripið fram í.) á sama verðlagi. Hugsið ykkur það og þrátt fyrir skattahækkanir og miklu meiri tekjur. Þið vitið hvert sveitarfélagið er og þið vitið hvaða ólánsstjórn hefur stjórnað því.

Varðandi jöfnunarsjóðinn sem um var spurt af hv. þm. Kristjáni Möller hafa sveitarfélögin í viðræðum við hæstv. félmrh. og fjmrh. talað um jöfnunarsjóðsframlögin. 700 millj. sem um var rætt voru tímabundin framlög. Ég get ekki lofað því að slík framlög verði áfram sett inn í jöfnunarsjóðinn. Þó að ríkisstjórnin hafi ekki útilokað að koma til móts við óskir sveitarfélaganna varðandi sjóðinn vil ég ekki nefna neinar tölur í því sambandi.

Ég vil einnig nefna það út af því sem hér var nefnt í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og aukin verkefni til þeirra að það þarf auðvitað að eiga sér stað og fara fram tekjuaðlögun að þeim breytingum sem þar er um að ræða.

Önnur spurning, sem hv. þm. Jóhann Ársælsson bar upp (Forseti hringir.) varðandi það hvort eigi að vera tvenns konar mismunandi sveitarfélög. Ég hygg að það sé skynsamlegt að reyna að hafa sveitarfélögin sem einsleitust.