Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:56:53 (1935)

2003-11-19 14:56:53# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÁI
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Fjölmiðlar eru ein af meginstoðum lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir eru hið svokallaða fjórða vald og að margra mati jafnvel hið öflugasta í nútímasamfélagi. Það ætti reyndar að vera óþarft að fjölyrða hér á hinu háa Alþingi um mikilvægi þess að í fjölmiðlum ríki fjölbreytni og að tjáningarfrelsi fjölmiðla verði ekki hneppt eða bundið á klafa hagsmuna eða viðskiptablokka. En á íslenskum fjölmiðlamarkaði eins og reyndar á fleiri sviðum samfélagsins og viðskiptalífsins stefnir nú óðfluga í fákeppni og samþjöppun. Ýmsir hafa lýst sérstökum áhyggjum af þessari þróun því að fákeppni er trúlega hvergi verri en einmitt í fjölmiðlun.

Inn í þessa umræðu hefur einnig blandast sú staðreynd að engin trygging er fyrir því í lögum að eigendur fjölmiðla þurfi að upplýsa almenning um eignarhald sitt á þeim. Vísbendingar hafa einnig komið fram um að á stundum a.m.k. séu lítil skil og jafnvel lágir múrar milli fjárhagslegs rekstrar og ritstjórnar bæði í prentmiðlum og ljósvakamiðlum.

Ég tel nauðsynlegt að fjölmiðlar njóti frelsis og sjálfstæðis en ég tel jafnframt mjög nauðsynlegt að almenningur viti hverjir eiga fjölmiðla og tel að sjálfstæði þeirra og frelsi væri ekki ógnað með lagasetningu þar um. Sú staðreynd að viðskiptablokkir og jafnvel bankar eru nú farnir að slást um eignarhald á fjölmiðlum í landinu vekur reyndar upp spurningar um hvort reisa eigi enn frekari skorður við eignarhaldi á þessum markaði til að hindra þar óæskileg hagsmunatengsl.

Samþjöppun eigna og valds á þessu sviði þjóðfélagsins getur nefnilega orðið lýðræðinu varasöm og sama þróun gæti í rauninni leitt til þess að allir fjölmiðlar í landinu fyrir utan Ríkisútvarpið kæmust á sömu hendur, enda hefur þessi umræða öll orðið til þess að mönnum er nú ljósara en áður mikilvægi þess að hafa hér öflugt ríkisútvarp í landinu og er það vel. En vegna þessarar samþjöppunar og umræðu sem orðið hefur á undanförnum vikum hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. svofelldra spurninga:

1. Hefur þróun mála á fjölmiðlamarkaði að undanförnu verið til umfjöllunar í ríkisstjórninni?

2. Telur ráðherra koma til greina að sett verði lög til að hindra frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja betur en nú er gert að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og óháðir?