Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:04:32 (1937)

2003-11-19 15:04:32# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég tek undir þakkir hæstv. forsrh. til hv. málshefjanda og vil sömuleiðis láta í ljósi þakkir til hæstv. forsrh. fyrir afar athyglisvert svar.

Mig langar til að segja það varðandi þessa umræðu að eins og það er nauðsynlegt að tryggja að almenningur viti hverjir eiga fjölmiðlana til þess að hann viti hverra hagsmuna er verið að gæta, ef ekki er gætt hlutleysis í viðkomandi fjölmiðli, er að sama skapi afar nauðsynlegt að ríkisstjórnin og stjórnvöld á hverjum tíma gái að sér varðandi stjórn sína og vald í Ríkisútvarpinu. Að öðrum kosti yrði Ríkisútvarpinu, sem er almannaútvarp í þjóðareign, stefnt í voða og breytt úr óháðum frjálsum fjölmiðli í ríkisstjórnarútvarp sem örugglega enginn vill. Það er því margs að gæta í þeirri umræðu sem hér er hreyft um hlutleysi fjölmiðla og nauðsyn þess að almenningur viti öllum stundum hverra hagsmuna er verið að gæta, málpípa hverra fjölmiðillinn er.