Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:08:23 (1940)

2003-11-19 15:08:23# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og get tekið undir með hæstv. forsrh. að það er mikilvægt að það liggi fyrir hverjir eiga fjölmiðla þó að það geti auðvitað verið í lausu lofti þegar þeir eru að skipta um eigendur, stór almenningshlutafélög. Það er með sama hætti fullkomlega smekklaust af hæstv. forsrh. að nota ræðustól Alþingis til þess að ráðast með þessum hætti að nafngreindum fjarstöddum einstaklingum aftur og aftur hér í fyrirspurnum.

Ég vil hins vegar fá að árétta það við forsrh. hvort það sé rétt skilið af ræðu hans að hann í rauninni óumbeðið bendi á að það geti verið ástæða til að niðurgreiða útgáfu áskriftarmiðla, til að mynda Morgunblaðsins, með því að tiltaka hér dæmið frá Svíþjóð og hvort það sé þá mál sem forsrh. hyggst hreyfa, þ.e. að útgáfa áskriftardagblaða og þá hugsanlega áskriftarsjónvarps eins og Stöðvar 2 verði niðurgreidd með beinum framlögum úr ríkissjóði eða hvort ráðherra telji koma til greina að beita sérstökum skattaívilnunum til að mynda varðandi virðisaukaskatt fyrir slíka miðla svo að þeir fái þrifist og dafnað.