Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:09:48 (1941)

2003-11-19 15:09:48# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka þetta mál upp og tek undir það sjónarmið hennar að það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita hverjir það eru sem eiga fjölmiðlana og það þarf að setja um það skýrar reglur.

Ég vil einnig taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni varðandi Ríkisútvarpið, þar þurfa að ríkja skýrar reglur. Það hlýtur að vera hlutverk okkar á Alþingi að tryggja réttlátar og skýrar leikreglur hvað varðar fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn rétt eins og aðra þætti. Það er okkar að móta leikreglurnar og hafa eftirlitið og annarra að vinna úr því. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum. Ég þakka því hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp.