Lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:18:46 (1947)

2003-11-19 15:18:46# 130. lþ. 31.4 fundur 289. mál: #A lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Þann 17. október 2001 var ég með fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar. Alþingi samþykkti í maí 1997 þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Síðan þá hefur ekki verið mikið rætt um framkvæmd þeirrar stefnu. Hlutverk allra ráðuneyta í mótun fjölskyldustefnu er mikilvægt bæði hvað varðar samfélagið í heild sinni en ekkert síður hvað varðar starfsfólk ráðuneyta.

Hæstv. utanrrh. skipaði í framhaldi af samþykkt Alþingis um fjölskyldustefnuna nefnd til að gera tillögur um mótun fjölskyldustefnu utanríksþjónustunnar. Sú nefnd skilaði áliti sínu og tillögum í október 1998. Þar var listi yfir ýmis atriði þar sem væri þörf á úrbótum. Um var að ræða níu atriði, þar á meðal lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna, kostnaðarhlutdeild ráðuneytis í forskólagjöldum og skólagjöldum barna þeirra, þörf fyrir sérstaka styrki vegna fjölskylduheimsókna og tengsl barna starfsmanna sem búsettir eru erlendis við íslenska skólakerfið og aðstoð við þessi börn vegna móðurmálskennslu við heimkomu þeirra. Þessi atriði og önnur sem talin voru upp í skýrslunni eru öll mikilvægir þættir í því að tryggja flutningsskyldum starfsmönnum utanríkisþjóustunnar og fjölskyldum þeirra fjölskylduvænt umhverfi. Það eiga að gilda skýrar reglur sem tryggja öllum starfsmönnum ráðuneyta og stofnana sem undir þau heyra fjölskylduvænt umhverfi. Framkvæmdarvaldið á að sjálfsögðu að ganga þar á undan með góðu fordæmi.

Hvergi er þó eins mikil nauðsyn á að tryggja, svo sem kostur er, rétt fjölskyldna en hjá flutningsskyldum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Makar þeirra starfsmanna sinna oftar en ekki mikilvægum verkum í okkar þágu en búa við töluvert óöryggi, sérstaklega á vinnumarkaði.

Því miður reynist það oft svo að ef maki starfsmanns utanríkisþjónustunnar leitar eftir vinnu meðan á dvöl hér heima stendur þá er erfitt að fá fasta vinnu einfaldlega vegna þess að þeir, eða í flestum tilvikum þær, eru ekki taldir öruggir starfskraftar vegna flutningsskyldu maka. Þessir einstaklingar búa því stóran hluta af ævi sinni við að vera ekki úti á vinnumarkaðnum, hafa ekki möguleika á því sem getur haft veruleg áhrif á kjör þeirra til frambúðar t.d. hvað varðar lífeyrisréttindi.

Í svari við fyrirspurn minni 2001, fyrir rúmum tveimur árum tók, hæstv. utanrrh. undir þá skoðun að athuga þyrfti sérstaklega lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna og nefndi að á Norðurlöndum hefði þessum hópi verið tryggð lífeyrisréttindi. Þá hefði hann skipað nefnd sem ætlað var að vinna að tillögum í þessum efnum. Starfshópurinn væri þá um það bil að ljúka störfum og að utanrrn. ætlaði í framhaldi af því að leggja fram tillögu sína til úrbóta. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur starfshópur ráðherra sem fjalla átti um lífeyrisréttindi maka flutningsskyldra starfsmanna í utanríkisþjónustunni lokið störfum? Ef svo er, hverjar voru tillögur starfshópsins og hvað hefur verið gert til þess að bæta réttindi þessa fólks?