Sameining ríkisháskólanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:31:47 (1952)

2003-11-19 15:31:47# 130. lþ. 31.5 fundur 103. mál: #A sameining ríkisháskólanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. er fljótsvarað. Á vegum stjórnvalda er ekki í undirbúningi að sameina ríkisháskólana innan einnar stofnunar. Hins vegar er það rétt að rektorar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands hafa látið skrifa greinargerð um aukið samstarf, verkaskiptingu eða sameiningu þessara stofnana en hún hefur ekki verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þessa greinargerð má finna á vef Kennaraháskóla Íslands. Ekkert formlegt erindi hefur borist ráðuneytinu vegna þessarar greinargerðar eða um að ráðuneytið beiti sér fyrir því að ríkisháskólarnir verði sameinaðir undir einni stofnun.

Á undanförnum árum hefur háskólinn hér á landi tekið miklum stakkaskiptum. Á Íslandi hefur það verið markmið stjórnvalda að fjölga háskólanemum og það markmið hefur gengið eftir. Nemendur í háskóla voru 5.300 árið 1990 en 14.000 árið 2002. Við erum raunar komin í forustusveitina hvað þetta varðar, þ.e. með hlutfall Íslendinga af aldursárgöngunum 18--74 ára sem eru í háskólanámi. Þessi þróun á rætur í miklum vexti háskólastarfseminnar undanfarin ár og ber vott um mikla gerjun. Það er eðlilegt að háskólarnir efli með sér samvinnu og hafi sjálfir frumkvæði að slíkri samvinnu ef þeir telja að hag þeirra verði betur borgið í samstarfi um ákveðna þætti. En frá mínum bæjardyrum séð er ákaflega mikilvægt að háskólarnir hafi sjálfir frumkvæði og ráði ferðinni í þessum efnum. Samstarf milli háskólanna hefur verið að aukast, ég nefni t.d. samstarf Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um nám og rannsóknir á sviði ferðaþjónustu. Þetta er í samræmi við þá meginhugsun sem endurspeglast í núgildandi löggjöf á sviði háskólamenntunar í landinu.

Hugmyndin um sameiningu er hins vegar ekki fyllilega í samræmi við þá miklu áherslu sem hefur verið lögð á sjálfstæði af hálfu skólanna sjálfra. Aftur á móti kunna að vera ýmsir möguleikar á auknu samstarfi og verkaskiptingu milli ríkisháskólanna. Að mínu mati er sjálfsagt og eðlilegt að stjórnendur þeirra leiti sameiginlegra lausna á ákveðnum viðfangsefnum. Slík samvinna gæti á endanum leitt til þess að háskólarnir héldu að einhvers konar sameining væri skynsamleg.

Svarið við fyrirspurn hv. þm. er eins og áður segir neikvætt. Á vegum stjórnvalda er ekki verið að vinna að sameiningu ríkisháskólanna innan neinnar stofnunar.

Það er kannski rétt að rifja upp að fljótlega eftir að farið var að tala af mikilli alvöru um að stofna Háskóla á Akureyri var rætt um það, um 1980 ef ég man það rétt, að þar yrði útibú frá Háskóla Íslands. Þegar ráðist var í stofnun háskólans var tekin um það ávörðun að svo yrði ekki heldur yrði háskólinn sjálfstæð stofnun. Nú eru allir á þeirri skoðun að það hafi verið mikið gæfuspor þegar sú ákvörðun var tekin. Skólinn hefur vaxið og dafnað. Segja má að það skref sem stigið var þegar skólinn var stofnaður hafi verið eitt mikilvægasta spor í landsbyggðamálum sem stigið hefur verið hér á landi. Það byggðist á því að skólinn væri sjálfstæður, þar væru teknar ákvarðanir innan sjálfstæðrar stofnunar og hann væri ekki öðrum háður í þeim efnum. Ég held að fáir mæli bót þeirri hugmynd að Háskólinn á Akureyri sameinist öðrum ríkisháskólum. Ég hef ekki heyrt að það sé skoðun þeirra sem fara með stjórn þess skóla og háskólarektor Háskólans á Akureyri hefur tjáð sig, ef ég man rétt, um að hann væri mótfallinn slíkum hugmyndum.