Sameining ríkisháskólanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:40:10 (1956)

2003-11-19 15:40:10# 130. lþ. 31.5 fundur 103. mál: #A sameining ríkisháskólanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hafa talað í málinu. Ég tek undir með hv. 1. þm. Suðurk. Að sjálfsögðu eiga allir skólarnir í landinu að heyra undir menntmrn. Umgjörðin skiptir auðvitað máli til að innihaldið sé í lagi.

Ég harma að ekki hafi borist erindi frá rektorum ríkisháskólunum um þetta til menntmrn. af því að auðvitað þarf frumkvæðið að koma þaðan. Í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram síðsumars og í haust er ástæða til að hvetja þá til að fylgja þeim hugmyndum eftir og koma þeim til ráðuneytis þannig að formleg vinna við athugun á ferlinu geti farið fram. Það er ekkert sem blasir við varðandi það hvort sameina eigi ríkisháskólana eða ekki. Það er nauðsynlegt að skoða þá kosti til að efla háskólastigið í ljósi alþjóðlegrar samkeppni og einnig til að efla háskólastigið á Íslandi í heild sinni, sem hefur tekið miklum stakkaskiptum og er mjög öflugt og gott í dag en má batna verulega til að það standi sig í samkeppninni.

Grundvallaratriðið er að kanna ítarlega hvort sameining ríkisháskólanna sé kostur sem mundi efla háskólastigið eða hvort það væri því ekki til framdráttar. Vilji rektoranna tveggja eins og ég gat um í fyrri ræðu minni gefur sannarlega tilefni til að kostir og gallar sameiningar ríkisháskólanna séu skoðaðir gaumgæfilega. Ég beini þeim tilmælum til þeirra að þeir komi erindi þar að lútandi til menntmrn. Sérstaklega þarf að skoða þetta í ljósi þess að þeir hafa fært sannfærandi rök fyrir því að slík sameining yrði háskólamenntun í landinu til framdráttar.