Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:52:48 (1961)

2003-11-19 15:52:48# 130. lþ. 31.6 fundur 106. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég get ekki skilið ræðu hæstv. menntmrh., óskýr sem hún var, nema þannig að vilji hans sé ekki sá að afnema þetta ábyrgðarmannakerfi, vilji hans sé að viðhalda því. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef rangt er skilið. Óskað var eftir afstöðu hans til málsins og sú afstaða kemur fram með því að hann vefur hana inn í miklar málalengingar en í gegnum lengingarnar glittir þó í þá afstöðu að hann sé í raun og veru hlynntur ábyrgðarmannakerfinu og telji meira að segja að um það sé breið pólitísk samstaða. Það er misskilningur, virðulegi forseti, að um það sé breið pólitísk samstaða. Samf. leggst gegn þessu ábyrgðarmannakerfi og heitir því að koma því á kaldan klaka þegar hún fær hér ráðið úr stóli þeim sem hæstv. ráðherra situr enn þá í.

Þróunin á fjármálamarkaði, í bankakerfinu o.s.frv. hefur verið sú að reyna að auka samband lánþegans og fjármálastofnunarinnar en hæstv. ráðherra virðist ætla að ganga í öfuga átt. Ég hvet hann þó til þess að reyna að setja í gang vinnu að því að gera þetta a.m.k. að sveigjanlegra kerfi en það er núna.