Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:55:41 (1963)

2003-11-19 15:55:41# 130. lþ. 31.6 fundur 106. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls til að hreyfa þessu mikilvæga og brýna hagsmunamáli fyrir námsmenn á Íslandi og í sjálfu sér Íslendinga alla þar sem þetta tengist flestum fjölskyldum á landinu. Það mátti þrátt fyrir allt greina í svari ráðherra að hann útilokar ekki að í þeirri endurskoðun sem væntanleg er og mun fara fram að hans sögn kemur til greina að endurskoða ábyrgðarmannakerfið vegna námslána. Ég hvet hann eindregið til þess að taka það inn í þá athugun og beita sér fyrir því að þessu verði breytt þannig að ábyrgðarmannakvöðin verði afnumin. Þetta er mikið ranglæti og stendur í veginum fyrir því að þessi mikilvægi jöfnunarsjóður í menntakerfinu geti staðið undir nafni og staðið við hlutverk sitt. Það er fjöldi námsmanna sem á þess ekki kost að leita til neinna um ábyrgðir á lán sín og þessu fólki er augljóslega gróflega mismunað. Þeim einstaklingum er haldið frá námi vegna efna foreldra sinna og nánustu aðstandenda. Það er einfaldlega rangt og á ekki að eiga sér stað.

Það er og hefur verið grundvallaratriði í samfélagi okkar að búa þegnum okkar sem jöfnust tækifæri, jafnan aðgang, að grundvallaratriðum, öllu því er rammar inn sanngjarnt velferðarsamfélag þar sem aðgangur er jafn að menntun og heilbrigðisþjónustu. Lagaákvæði um ábyrgðarmenn á námslán vinnur gegn þessu og hvet ég hæstv. ráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að þetta verði endurskoðað í þeirri vinnu sem þarna er að fara fram. Stefna Samf. er skýr og klár eins og kom fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar og Jóhanns Ársælssonar og mun flokkurinn flytja frv. um lánasjóðinn þar sem tekið verður á þessum málum því að við þetta verður ekki unað. Þar munum við leggja til að ákvæði um ábyrgðarmenn á námslán verði afnumið og þessi mál færð til réttlætis og betri vegar.