Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:57:59 (1964)

2003-11-19 15:57:59# 130. lþ. 31.6 fundur 106. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, hefur skilið í máli mínu, ég útiloka alls ekki að endurskoða ábyrgðarmannakerfið í þeirri endurskoðun sem fram undan er. Og ég gat þess í ræðu minni að það væri líklegt að sú athugun yrði einmitt hluti af heildarendurskoðun laganna. Þetta er alveg skýrt af minni hálfu.

Þegar ég nefndi það hér áðan að það hefði lengi verið, eins og ég orðaði það nákvæmlega, nokkuð breið pólitísk samstaða um málið var ég að vísa til þess að ábyrgðarmannakerfið hefur verið hluti af lánasjóðskerfinu frá upphafi, þar á meðal hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á sínum tíma, án þess að ástæða væri talin til þess að breyta því þá. Þar fór Alþýðubandalagið með málefni menntmrn. og síðan var þessu ekki hreyft í samstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstfl. þannig að þeir stofnar sem standa að Samf. hafa á fyrri árum staðið vörð um ábyrgðarmannakerfið. Það er þess vegna rétt sem ég sagði áðan að það hefur lengi verið breið pólitísk samstaða um þetta ábyrgðarmannakerfi en nú er búið að heita því að líta á þessi lög og skoða hverju mætti þar breyta og hvað mætti þar betur fara. Þetta mál sérstaklega, þ.e. ábyrgðarmannakerfið, er hluti af því sem mér finnst eðlilegt að endurskoða.