Nefndadagar

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:02:13 (1965)

2003-11-19 18:02:13# 130. lþ. 31.93 fundur 171#B nefndadagar# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Á þingflokksfundi hjá Samf. áðan fórum við yfir þá vinnu sem fram undan er í hverri einustu fastanefnd þingsins og það kom í ljós eftir þá yfirferð að aðeins 3--4 af fastanefndunum 12 virðast vera að leggja inn í nefndadagana með fullt vinnuprógramm. Aðrar nefndir eru ýmist með mjög lítið á sinni könnu vegna þess að það eru einfaldlega engin mál komin inn í nefndirnar eða þá að í sumum tilfellum er um fundafall að ræða.

Virðulegi forseti. Við erum að leggja inn í þriggja daga nefndavinnu samkvæmt starfsáætlun. Þingfundir liggja niðri á meðan og ég verð að segja að mér þykir þetta ekki nægilega vel með tíma okkar hér farið og velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort við séum virkilega búin að binda okkur það kirfilega niður samkvæmt starfsáætlun sem gerir ráð fyrir þremur nefndadögum að við getum ekki hliðrað til og haft hér þingfundi hluta af þessum dögum í stað þess að vera meira og minna með, ég vil segja nánast alfarið, frí í sumum nefndum. Í mörgum tilvikum er engin vinna í nefndunum og kannski hefði verið eðlilegra, virðulegi forseti, að forseti kannaði það áður en lagt væri af stað inn í slíka daga hvort einhver vinna lægi fyrir í nefndunum sem gæfi tilefni til þriggja nefndadaga.

Eftir rúma viku förum við aftur í tvo nefndadaga og ég legg til, virðulegi forseti, að það verði gerð svolítil könnun á því þá hvort ástæða sé til þess að taka þá nefndadaga alla í nefndavinnu. Það má kannski segja líka, virðulegi forseti, að þessi staða undirstriki þau vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar sem hér eru því miður orðin allt of oft tíðkuð, að koma aldrei með mál inn í þingið fyrr en á síðustu stundu. Síðan er ætlast til þess að þingið vinni sína vinnu á allt of miklum hraða, jafnvel þannig að þingið hafi ekki kost á að kynna sér málin til hlítar.

Virðulegi forseti. Með stefnuræðu sinni þann 2. október lagði hæstv. forsrh. hér fram gríðarlegan fjölda mála frá ríkisstjórninni. Einungis örlítið brot, virðulegi forseti, af þeim málum sem þar eru nefnd eru komin fram en ég bendi á að þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki haft burði til að leggja fram mál til þess að ræða og halda uppi þingstörfum hefur Samf. lagt fram fjölda þingmála sem krefjast mikillar umræðu og hefði þá mátt nota tímann í að ræða mál frá stjórnarandstöðunni í staðinn.