Menningarmál á Vesturlandi

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:07:59 (1968)

2003-11-19 18:07:59# 130. lþ. 31.7 fundur 149. mál: #A menningarmál á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. menntmrh. Á árinu 2001 fór Samband sveitarfélaga á Vesturlandi þess á leit við menntmrn. og þáv. menntmrh. Björn Bjarnason að fundinn yrði grundvöllur fyrir menningarsamningi milli sveitarfélaganna á Vesturlandi og ráðuneytisins. Var þetta gert í framhaldi af nýútkominni skýrslu starfshóps sem fjallaði um það hvernig efla mætti menningarstarf á landsbyggðinni. Niðurstaðan varð sú að samþykkt var að undirbúningsvinna hæfist þá þegar og, eins og segir í bréfi ráðuneytisins, ,,verði við það miðað að unnt verði að ljúka samningsgerð á árinu 2002``.

Síðla árs 2002 voru samningsdrögin tilbúin og var þess vænst að menntmrh. mundi staðfesta þau þá um haustið og hægt yrði að taka mið af samningnum við fjárlagagerð fyrir árið 2003. Af ástæðum sem ekki hafa fengist skýrðar varð ekki af staðfestingu samningsins 2002 og allar tilraunir til að taka málið upp á þessu ári og ljúka samningum hafa reynst árangurslausar án skýringa. Væntingar vestlenskra sveitarstjórnarmanna og íbúa fyrir menningarsamningi voru miklar og því urðu þeim mikil vonbrigði að fá ekki samninginn í gegn.

Með þessari samningsgerð var það ætlun og von sveitarfélaganna að fella ákveðinn þátt menningarstarfs á svæðinu í sameiginlegan farveg og fá þar með öflugra og samræmt skipulag og framkvæmd á ákveðnum þáttum þess. Í ljósi fjálglegra yfirlýsinga um byggingu menningarhúsa fyrir kosningar þótti einsætt að þessi samningur mundi falla undir þann mikla áhuga og ljúkast á sl. vori. Nú hefur verið gerður hliðstæður samningur við sveitarfélögin á Austurlandi og ætti að vera komin nokkur byrjunarreynsla af þeirri samningsgerð. Nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:

Hefur eitthvað komið fram sem bendir til að sú samningsgerð sem þarna er verið að fara fram á geti verið eitthvað óheppileg eða hefur reynsla af Austurlandi t.d. vakið upp efasemdir um að þetta væri rétt leið til þess að koma á formlegu samkomulagi um ákveðna þætti milli sveitarfélaga og ríkis í menningarmálum?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. svari því hvenær hann hyggist staðfesta samstarfssamning um menningarmál við sveitarfélög á Vesturlandi eða hvaða atriði það eru sem hindra að svo verði.