Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:22:55 (1974)

2003-11-19 18:22:55# 130. lþ. 31.8 fundur 151. mál: #A sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi hefur spurt mig fimm spurninga sem snúa að sálfræðiþjónustu og þá einkum sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar. Ég vona að fyrirspyrjandi leyfi og hafi ekki athugasemdir við það þó ég svari þessum fimm spurningum í samfelldu máli.

Í fyrsta lagi hefur ríkið horfið frá því verklagi að ákveða fjárveitingar eftir stöðugildum og því gefur ráðuneytið ekki sérstakar heimildir fyrir stöðugildum einstakra starfsstétta. Á Heilsugæslunni í Reykjavík eru nú starfandi tveir fastráðnir sálfræðingar og einn lausráðinn í 80% starfi. Þessir sálfræðingar starfa allir á Miðstöð heilsuverndar barna og er gert ráð fyrir óbreyttri starfsemi á næsta ári.

Aðrar heilsugæslustöðvar sem veita sálfræðiþjónustu eru m.a. Akranes, Ísafjörður, Akureyri og Selfoss.

Heilsugæslan á Akranesi er með tilraunaverkefni sem felst í að meðhöndla ofvirk börn í teymisvinnu. Þar starfar iðjuþjálfi í fullu starfi og barnalæknir og sálfræðingur í hlutastarfi.

Á Selfossi var um mitt ár 1999 sett í gang á vegum heilsugæslunnar tilraunaverkefni um meðferðarúrræði fyrir börn á grunnskólaaldri og yngri. Um er að ræða eina stöðu sálfræðings sem hefur verið sinnt af tveimur sálfræðingum á staðnum. Heilsugæslan hefur samstarf við Skólaskrifstofu Suðurlands og tekur m.a. við tilvísunum frá þeim.

Heilsugæslan á Ísafirði hefur gert samning við sálfræðing um að þjóna stöðinni fjóra daga í mánuði, þ.e. tvisvar í mánuði og er tvo daga á staðnum í hvort skipti. Hér er um almenna sálfræðiþjónustu að ræða og þeir sem koma eftir tilvísun heilsugæslulæknis greiða sömu sjúklingahlutdeild og er hjá sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum en aðrir greiða fullt verð eða rúmlega 5.000 kr. fyrir 50 mínútna viðtal.

Á Akureyri er starfandi einn sálfræðingur í fjölskylduráðgjöf samkvæmt þjónustusamningi ríkisins við Akureyrarbæ. Aðaláherslan hefur verið lögð á fjölskylduráðgjöf í tengslum við mæðra- og ungbarnavernd.

Hér er um afmörkuð verkefni að ræða nema hvað varðar þjónustuna á Ísafirði.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Efla þarf heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Áfram verði unnið að aukinni þjónustu við geðfatlaða. Sérstaklega þarf að huga að börnum og unglingum með geðraskanir og þroskafrávik.``

Einn þáttur í að ná fram ofangreindum markmiðum er að auka sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar og í fjárlögum næsta árs er að finna fjárveitingu til tilraunaverkefnis um samstarfsteymi sálfræðings, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa í Heilsugæslunni í Reykjavík. Mun teymið vætnanlega hefja störf upp úr áramótum. Ég vænti mikils af þessu tilraunaverkefni og vonandi verður reynslan slík að hún verði yfirfærð á fleiri heilsugæslustöðvar í framtíðinni.

Hvað varðar samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga er skemmst frá því að segja að ekki hefur verið samið við þá og verður ekki á næsta fjárhagsári miðað við það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir. Þar sem ekki hefur verið samið um þessa þjónustu liggur ekki fyrir ákvörðun um með hvaða hætti greiðsluþátttakan yrði ef af samningum yrði.

Það er stefna ráðuneytisins að efla grunnheilbrigðisþjónustuna og að hún verði veitt á heilsugæslustöðvum. Ráðuneytið hefur til að mynda lagt áherslu á að vera með tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar til að efla geðvernd og þá sérstaklega barna og unglinga. Því þarf að skoða vel hvort ekki sé rétt að leggja megináhersluna á að veita fjármagn í að byggja upp grunnþjónustuna í tengslum við heilsugæsluna áður en gerðir verða samningar við sjálfstætt starfandi sérfræðinga.