Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:30:21 (1977)

2003-11-19 18:30:21# 130. lþ. 31.8 fundur 151. mál: #A sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að eins og kom fram í svari mínu tel ég að við getum ekki farið í samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga nema hafa fjárheimildir til að standa undir þeim samningum. Þær fjárheimildir eru ekki fyrir hendi og þess vegna hafa samningar ekki verið gerðir. Ég hef í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að Samfylkingin leggi fram frv. um þetta mál. Það mun þá væntanlega fylgja því frv. og umræðum um það hvar eigi að fá fjármagn í þetta mál því að ég tók eftir því á landsfundi Samfylkingarinnar að formaður hennar tók það fram að það væri nóg fjármagn í heilbrigðiskerfinu, það væri stefnumótun sem vantaði og væntanlega forgangsröðun. Ég vil þá bíða eftir því að heyra það. En ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið samið við sjálfstætt starfandi sálfræðinga er einfaldlega sú að fjárheimildir eru ekki fyrir hendi til að ganga í það verk.